Innlent

Borgin krefst hærri arðgreiðslna

Sigrún Elsa.
Sigrún Elsa. Mynd/Haraldur Jónasson
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að borgarstjóri hafi sent fulltrúum Reykjavíkurborgar í stjórnum  B-hluta fyrirtækja borgarinnar bréf þar sem farið er þess á leit að fyrirtækin skili eigendum sínum auknum arði á næsta ári. Hún segir um sé að ræða orkuskatt meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Í tilkynningu frá Sigrúnu Elsu segir að stærsti liðurinn sé krafa um auknar arðgreiðslur Orkuveitu Reykjavíkur. Farið sé fram á að arðgreiðslurnar hækki um 1.350 milljónir og segir Sigrún Elsa að það sé nálega þreföldun á núverandi arðgreiðslum sem yrðu þá rúmir 2,1 milljarðar. Hún bendir á að laun og launatengd gjöld sem Orkuveitan greiddi árið 2008 voru tæpir 5 milljarðar. Ljóst sé að fjárhagsstaða fyrirtækisins sé mjög þröng. Tapið á árinu 2008 hafi verið 73 milljarðar.

Borgarfulltrúinn segir að rík krafa sé um að Orkuveitan haldi áfram virkjunarframkvæmdum til aukinnar raforkuframleiðslu.

„Vegna stöðu fyrirtækisins er óhjákvæmilegt að ráðist verði í stórfellda hagræðingu í rekstri og jafn ljóst er að kröfu borgarinnar um auknar arðgreiðslur verður ekki mætt með hagræðingu enda fjárþörf OR vegna framkvæmda langt umfram mögulega hagræðingu."

Sigrún Elsa segir að um dulbúna skattheimtu sé að ræða. „Þannig verður kröfu um arðgreiðslur ekki mætt með öðrum hætti en frestun framkvæmda, aukinni lántöku og þar með enn lægra eiginfjárhlutfalli OR eða hækkunar á gjaldskrá sem er þá ekkert annað en dulbúin skattheimta á notendur þjónustunnar."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×