Erlent

Írar nú sáttari við Lissabon-sáttmálann

Kosningaspjald á ljósastaur í Dublin, þar sem Írar eru hvattir til þess að hafna Lissabon-sáttmálanum. nordicphotos/AFP
Kosningaspjald á ljósastaur í Dublin, þar sem Írar eru hvattir til þess að hafna Lissabon-sáttmálanum. nordicphotos/AFP
Örlög Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins ráðast í þjóðar­atkvæðagreiðslu á Írlandi næsta föstudag. Samkvæmt skoðanakönnun, sem birt var fyrir helgi, eru góðar líkur til þess að samningurinn verði samþykktur.

Ráðamenn Evrópusambandsins geta þá andað léttar, því þessi sami samningur var felldur í júní á síðasta ári á Írlandi. Sú niðurstaða olli miklu uppnámi í Evrópusambandinu og varð til þess að tefja enn frekar þær breytingar á sambandinu, sem Lissabon-sáttmálinn kveður á um.

Samkvæmt skoðanakönnun TNS styðja 48 prósent Íra samninginn núna, 31 prósent eru andvíg en 19 prósent óákveðin. Staðan var svipuð þegar síðasta könnun var gerð fyrir þremur vikum, þegar eiginleg kosningabarátta hófst.

Ef óákveðnum er sleppt, þá eru 59 prósent fylgjandi samningnum, en 41 prósent andvíg.

Samningurinn, sem nú verður kosið um, er þó ekki nákvæmlega sá sami og Írar felldu fyrir rúmu ári. Nokkrum viðaukum hefur verið bætt við hann til að koma til móts við gagnrýni Íra.

Meðal annars var samþykkt að Írland og önnur smærri aðildarríki Evrópusambandsins fái áfram að eiga fulltrúa í framkvæmdastjórn sambandsins, en fyrirhugaðar breytingar á því fyrirkomulagi voru líklega það sem helst gerðu útslagið um að Írar felldu samninginn í fyrra.

Einnig er fallist á að Írar fái áfram að ráða því hvernig þátttöku írska hersins í aðgerðum á vegum ESB verður háttað. Írar fá einnig að ráða eigin skattamálum áfram og þurfa ekki að lúta niðurstöðum evrópsks dómstóls um fóstur­eyðingar.

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna undirrituðu Lissabon-sáttmálann í desember árið 2007, og átti hann að koma í staðinn fyrir stjórnarskrársáttmála sambandsins, sem ekkert varð úr vegna andstöðu Frakka og Hollendinga árið 2005.

Lissabon-sáttmálinn gengur ekki eins langt og stjórnarskrársáttmálinn, en báðir ganga út á að endurbæta stofnanakerfi og starf Evrópusambandsins og aðlaga það þeirri miklu fjölgun aðildarríkjanna sem orðið hefur undanfarin ár.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×