Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur staðfest að Steven Gerrard gæti snúið aftur í lið Liverpool í kvöld er liðið mætir Birmingham í ensku úrvalsdeildinni.
Gerrard hefur aðeins leikið í 25 mínútur í síðustu 5 leikjum liðsins. Gerrard er slæmur í nára og er óttast að hann gæti þurft að fara í aðgerð vegna meiðslanna.
„Hann er auðvitað ekki lengur í toppformi og við munum sjá til hvort hann sé í standi til að byrja leikinn eða verði á bekknum," sagði Benitez,
„Þegar leikmaður hefur ekki æft með liði í 15 daga þá er hann aldrei alveg heill heilsu. Við verðum að sjá til hvernig þetta verður í kvöld."
Benitez segir einnig koma til greina að nota Fernando Torres í leiknum.