Innlent

STEF-gjöld fyrir bekkjarmót

Tónarnir kosta.
Tónarnir kosta.

Aðstandendur bekkjarmóts 1963-árgangs Hólabrekkuskóla þurfa að greiða leyfisgjald til STEF vegna tónlistarflutnings í veislunni. Skólamótið verður haldið 5. september næstkomandi og var aðstandendum sent bréf þar sem þeir voru minntir á leyfisgjald STEF, vegna auglýsingar sem birtist í Fréttablaðinu 12. ágúst.

„Við heimilum flutning tónlistar gegn greiðslu. Þetta er alveg eins samkoma og allar aðrar samkomur í mínum augum þó að umræðuefnið sé gamlir og góðir skóladagar, sem er í sjálfu sér ágætt," segir Gunnar Stefánsson, innheimtustjóri STEF.

Leyfisgjald STEF fer eftir gjaldskrá. Ef innan við 100 manns mæta er gjaldið 4.134 krónur. Einnig eru tekin fjögur prósent af miðagjaldi. Miðaverð á bekkjarmótið er 2.500 krónur og tekur STEF því 165 krónur á hvern miða.

„Ef tónlist er leikin af hljóðrituðum diskum ber einnig að greiða til SFH [Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda]," segir Gunnar. Það gjald er sextíu prósent af álagi STEF-gjalda, sem myndi þýða 2.480 krónur. Ef nákvæmlega 100 manns mæta og spiluð verður tónlist af geisladiskum nemur leyfisgjaldið 23.114 krónum. Tekur Gunnar fram að ekki sé um einkasamkomu í heimahúsi að ræða, en þær samkomur eru ekki skyldar til að greiða leyfisgjald STEF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×