Erlent

Tamíl tígrar innikróaðir

Útlit er fyrir að komið sé að endalokum Tamíl tígra á Sri Lanka. Her þeirra er innikróaður á nokkurra ferkílómetra svæði í norðurhluta landsins.

Síðastliðinn mánudag sprengdi stjórnarherinn sig í gegnum mikinn virkisvegg sem Tamílar höfðu reist meðal annars til þess að koma í veg fyrir að óbreyttir borgarar gætu flúið af vígvellinum.

Tamílar notuðu fólkið sem skildi gegn stjórnarhernum. Yfirvöld segja að síðan virkisveggurinn var sprengdur hafi um 95 þúsund manns forðað sér af vígvellinum. Tamílar halda nú aðeins um þrettán ferkílómetra svæði og stjórnarherinn er að hefja lokasóknina.

Borgarastyrjöld hefur geisað á Sri Lanka síðan 1983 og tugþúsundir manna fallið í valinn. Tamílar hafa barist fyrir sjálfstæðu ríki sínu í norður og austurhluta landsins.

Eftir margra ára samningaviðræður og fjölmörg vopnahlé sem hafa farið út um þúfur ákváðu stjórnvöld að ganga á milli bols og höfuðs á Tamílum í eitt skipti fyrir öll.

Í stórsókn stjórnarhersins undanfarin misseri hefur þrengt æ meira að her Tamíla. Er nú svo komið að ekki er talið nema dagspursmál hvenær hann verður þurrkaður út.

Yfirvöld segja að foringjar Tamíla séu nú farnir að gefast upp hver af öðrum og gefa sig fram við stjórnarherinn.




Tengdar fréttir

150 þúsund almennir borgarar innlyksa

Uppreisnarmenn Tamíl Tígra á Srí Lanka saka stjórnarher landsins um að hafa varpað sprengjum á almenna borgara í sókn sinni í norðurhluta landsins. Stjórnvöld neita því og segja tígrana skjóta á borgara sem reyni að flýja átakasvæðið.

Tamíl Tígrar saka herinn um árásir á borgara

Talsmenn Tamíl Tígranna á Sri Lanka ásaka stjórnarherinn um að hafa gert loftárásir á óbreytta borgara á meðan herinn sótti fram á norðurhluta eyjarinnar. Stjórnvöld neita ásökunum og segja á móti að Tígrarnir sjálfir hafi skotið á almenna borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×