Innlent

Segir upplognarsakir vera meiðyrði

Grétar Berndsen.
Förum í meiðyrðamál eða reynum með einhverju móti að stöðva þetta fólk, segir eigandi Óðals sem kveður andstæðinga nektardansstaða beita upplognum ávirðingum um tengsl staðanna við glæpastarfsemi.
Grétar Berndsen. Förum í meiðyrðamál eða reynum með einhverju móti að stöðva þetta fólk, segir eigandi Óðals sem kveður andstæðinga nektardansstaða beita upplognum ávirðingum um tengsl staðanna við glæpastarfsemi.

Grétar Berndsen, eigandi Óðals, segir ekki hægt að líða að ráðamenn þjóðarinnar komi í fjölmiðla og rústi mannorði starfsfólks Óðals með fullyrðingum sem eigi ekki við nein rök að styðjast.

Eins og fram hefur komið liggur nú fyrir Alþingi frumvarp um að banna nektardans. Telur Grétar það ganga á rétt nektardansstaðanna og starfsmanna þeirra. Hann hefur varað við að hundruð milljóna króna skaðabótakröfur vofi yfir ríkinu verði bannið samþykkt. Til dæmis hafi Óðal gilt leyfi út árið 2012.

„Það er ljóst að ef menn ætla að halda áfram að réttlæta þessa breytingu á lögunum með einhverjum frösum eða upplognum ásökunum þá verður ekki hjá því komist að fara í meiðyrðamál við viðkomandi aðila eða reyna með einhverju móti að stöðva þetta fólk,“ segir Grétar og vísar þar til orða ýmissa alþingismanna meðal annarra sem halda því fram að nektardansstaðir tengist glæpastarfsemi á borð við mansal og vændi. Grétar segir þetta algerlega ósannað mál hvað Óðal snerti.

„Ég verð að efast um heiðarleika fólks sem vinnur með þessum hætti og maður verður hræddur um hversu hættulegt það getur orðið þegar mikil völd færast á hendur fólks sem hugsar mál út frá þröngum hagsmunum öfgahópa og frá þeim sem vilja banna alla skapaða hluti sem ekki henta þeim sjálfum.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×