Innlent

Nýja Hvítárbrúin steypt

Uppundir 150 manns hafa frá því eldsnemma í morgun unnið að einhverju viðamesta steypuverkefni sem um getur hérlendis, að steypa nýju Hvítárbrúna við Flúðir í Árnessýslu. 32 steypubílar eru í stöðugum ferðum fram á morgundaginn, bæði frá Selfossi og úr Reykjavík.

Það var ákveðið að nýta hagstæða veðurspá til að drífa af þetta vandasama verk, að steypa fyrri áfanga þessarar 270 metra löngu brúar. Mannskapurinn byrjaði klukkan fimm í morgun og það verður haldið áfram í einni striklotu fram á morgundaginn, með hvíldum á milli.

Um 50 manns steypa á vegum Jáverks og nærri eitthundrað manns á vegum Steypustöðvarinnar, sem varð meira að segja að fá lánaða bíla frá keppunautnum, enda þarf 270 ferðir til að flytja tvöþúsund rúmmetra af steypu um langan veg.

Aðeins eru fimm mánuðir frá því smiðirnir hófu brúarsmíðina en áður var Ræktunarsamband Flóa og Skeiða byrjað að leggja veginn að brúarstæðinu. Axel Davíðsson, verkefnisstjóri Jáverks, segir verkið hafa gengið alveg glimrandi og þeir verið ótrúlega heppnir með veður. Fyrir héraðið eru þetta uppgrip því það eru nánast eingöngu Sunnlendingar sem smíða brúna og leggja veginn. Fjórir þeirra búa á Flúðum og þeir sigla á báti yfir Hvítá í vinnuna á fimm mínútum í stað þess að keyra 35 kílómetra leið á hálftíma.

Fyrir steypusala eru þetta verk helsta glætan á árinu. Hannes Sigurgeirsson, forstjóri Steypstöðvarinnar, segir árið hafa verið erfitt, - búið að fækka mannskap og tækjum, en nú sjái hann fram á viðsnúning. Hann horfir vonaraugum til stórframkvæmda, við virkjanir og álver.

Þegar búið verður að rífa steypumótin frá verður Hvítá veitt undir þennan hluta brúarinnar og síðari áfanginn einnig smíðaður á þurru. Áformað er að umferð verði hleypt á brúna eftir um það bil tíu mánuði, síðla næsta sumars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×