Innlent

Sætir ákæru fyrir milljónaskattsvik

Maðurinn keypti fyrr í ár helmingshlut í húsi í Grundarfirði. Skömmu síðar brann það og allt sem í því var.Fréttablaðið / vilhelm
Maðurinn keypti fyrr í ár helmingshlut í húsi í Grundarfirði. Skömmu síðar brann það og allt sem í því var.Fréttablaðið / vilhelm

Íslendingurinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um tengsl við glæpamálið umfangsmikla sem upp kom á Suðurnesjum um miðjan október sætir ákæru fyrir skattsvik upp á tæpar tuttugu milljónir.

Saksóknari efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra gaf í mars út ákæru á hendur manninum, sem er tæplega fertugur eigandi verktakafyrirtækis. Samkvæmt ákærunni láðist manninum, fyrir hönd heildverslunar sem hann á, að standa skil á tæplega sautján og hálfri milljón króna í virðisaukaskatt árin 2004 og 2005. Auk þess hafi hann ekki greitt um 2,1 milljón í opinber gjöld af launum starfsmanna félagsins.

Málið er enn til meðferðar fyrir dómstólum. Brot gegn þessum lögum getur varðað allt að sex ára fangelsi, þótt þau leiði oftar en ekki til skilorðsbundinnar refsingar.

Maðurinn var handtekinn í kjölfar mansalsmáls sem upp kom þegar nítján ára litháísk stúlka kom til landsins um miðjan síðasta mánuð. Hann er meðal annars grunaður um tryggingasvik, en hús sem hann hafði nýlega keypt í Grundarfirði brann í ágúst síðastliðnum. Einnig sitja fimm Litháar í varðhaldi vegna málsins. Þrír þeirra höfðu unnið hjá verktakafyrirtæki Íslendingsins. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×