Innlent

Helmingur þingheims tengdur hlutafélögum

Steingrímur J. Sigfúss Jóhanna Sigurðardóttir Indriði H. Þorláksson Samninganefnd ríkisins um Icesave
Steingrímur J. Sigfúss Jóhanna Sigurðardóttir Indriði H. Þorláksson Samninganefnd ríkisins um Icesave

Alls eru 32 alþingismenn skráðir í hlutafélagaskrá, sem stjórnarmenn, prókúruhafar, framkvæmdastjórar, endurskoðendur eða meðstjórnendur samkvæmt nýrri greiningu Creditinfo Ísland fyrir Fréttablaðið.

„Þingmenn eru með þátttöku sinni tengdir 52 fyrirtækjum skráðum í Hlutafélagaskrá. Fyrir rúmlega ári síðan tengdust þingmenn 70 fyrirtækjum með þeim hætti,“ segir í skýrslu sem Guðni Tómasson, Guðni P. Sigurgeirsson og Starri Freyr Jónsson, starfsmenn Creditinfo, gerðu um þátttöku þingmanna í atvinnulífinu. Algengast segja skýrsluhöfundar að þingmenn tengist fyrirtækjum með stjórnarsetu.

„Þátttaka þingmanna allra flokka í atvinnulífinu hefur aukist nema hjá Sjálfstæðisflokknum. Þar hefur hún minnkað mikið eftir kosningar. Áður gegndu þeir fjörutíu hlutverkum en nú einungis sautján. Þátttaka þingmanna Framsóknarflokksins eykst mikið eftir kosningar. Nú gegna þeir flestum hlutverkum allra flokka (21) þrátt fyrir að vera fjórði stærsti flokkurinn,“ segir Credit-info.

Áfram segir í skýrslunni að fyrir síðustu alþingiskosningar hafi einn þingmaður Samfylkingarinnar gegnt stjórnarformennsku. Nú gegni þingmenn flokksins stjórnarformennsku í sex félögum. „Sjö af fjórtán þingmönnum VG tengjast fyrirtækjum eftir kosningar í stað þriggja áður. Þrír af fjórum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar gegna samtals sex hlutverkum.“

Auk þess sem byggt er á hlutafélagaskrá með fyrrgreindum hætti yfirfór Creditinfo innsend gögn hjá ársreikningaskrá til að kanna eignatengsl þingmanna við fyrirtæki. Eins og fram kom í blaðinu í gær er þar stuðst við ársreikninga fyrir árið 2007. Slík skjöl eru ekki tæmandi heimild, bæði vegna þess að mörg fyrirtæki eiga enn eftir að skila inn ársreikningum fyrir þetta ár þótt tíu mánuðir séu síðan frestur til þess rann út og eins vegna þess að sum fyrirtæki láta einfaldlega ekki getið um eignarhaldið í reikningum sínum.

Vegna þess hvernig skráningu er háttað er ekki hægt að bera saman stöðu manna fyrir og eftir bankahrunið, segir Creditinfo. Breytingarnar sem nýja skýrslan sýnir miðað við fyrri skýrslu Credit-info frá því fyrir síðustu alþingiskosningar byggja því einfaldlega á breyttri skipan Alþingis.

„Breytingar hafa orðið hjá Framsóknarflokknum. Fyrir kosningar var enginn þingmaður skráður með eignarhlut en nú eru þrír af níu þingmönnum skráðir með eignarhluti. Hlutfall þingmanna VG með eignarhlut er svipaður eftir kosningar og helmingur þingmanna Borgarahreyfingarinnar á eignarhlut eða tveir af fjórum þingmönnum,“ segir í helstu niðurstöðu Creditinfo um eignarhluti þingmanna í fyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×