Innlent

ASÍ spáir 9-10% atvinnuleysi næstu misseri

Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ.
Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ.
Hagdeild Alþýðusambands Íslands hefur sent frá sér nýja hagspá um horfur í efnhagsmálum til ársins 2012. Hagdeildin spáir ríflega 10% samdrætti í landsframleiðslu í ár og áframhaldandi samdrætti á fyrri hluta næsta árs. Botninum verði hinsvegar náð á öðrum ársfjórðungi ársins 2010. Þá er útlit fyrir að atvinnuleysi verði milli 9-10% næstu misseri. Í hagspánni kemur fram að draga muni úr atvinnuleysi þegar líða tekur á spátímabilið. „Háir vextir, veik króna, takmarkað aðgengi að lánsfé og minnkandi eftirspurn gerir rekstrarskilyrði fyrirtækja erfið. Þungar vaxtagreiðslur, vaxandi útgjöld vegna atvinnuleysis og samdráttur í tekjum valda verulegum hallarekstri hjá hinu opinbera á næstu árum. Til þess að ná sem fyrst jöfnuði á ný í rekstri ríkis og sveitarfélaga er óumflýjanlegt að auka skatttekjur og draga umtalsvert úr útgjöldum hins opinbera,“ segir í spánni. Þá er því einnig spáð að verðbólga hjaðnar og verði komin í 4% í árslok og gengi krónunnar verði stöðugra en helst áfram hátt. Í spánni er gert ráð fyrir að Seðlabankinn haldi áfram að lækka stýrivexti þegar skýr merki sjást um að tekist hafi að endurvekja traust á íslenskt efnahagslíf og þá mun hann jafnframt létta á gjaldeyrishöftum í áföngum. Í tilkynningu vegna spáarinnar segir að takist „okkur að auka trúverðugleika hagkerfisins eins og að er stefnt í nýgerðum stöðugleikasáttmála stjórnvald og aðila vinnumarkaðarins mun endurreisnin ganga hraðar en spáin gerir ráð fyrir. Áhrifin munu þá birtast í jákvæðari horfum á síðari hluta spátímans.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×