Innlent

Segir pólitík á bak við frávísun

Finnbogi Vikar Guðmundsson var vísað út af aðalfundi LÍÚ í gær.
Finnbogi Vikar Guðmundsson var vísað út af aðalfundi LÍÚ í gær.

Finnbogi Vikar Guðmundsson, laganemi við Háskólann á Bifröst, fullyrðir að honum hafi verið vísað út af aðalfundi LÍÚ í gær vegna gagnrýninna skrifa um fiskveiðistjórnunarkerfið í vor. Finnbogi segist hafa sótt fundinn til að afla sér upplýsinga um sjávarútveg. Hann situr í starfshópi á vegum sjávarútvegsráðherra sem ætlað er að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar, og var tilnefndur af Borgarahreyfingunni.

„Ég tengi þetta atvik beint við skrif okkar Þórðar Más Jónssonar um kerfisbundna misnotkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ég vissi ekki að þetta risti svona djúpt," segir Finnbogi. Hann segir að sér hafi verið vísað á dyr eftir að upplýsingafulltrúi LÍÚ hafði „ráðfært sig við yfirboðara sína".

Sigurður Sveinn Sverrisson, upplýsinga- og kynningarmálafulltrúi LÍÚ, segir ekki ástæðu til að gera frávísun Finnboga tortryggilega enda sé hún á engan hátt persónuleg. Finnbogi hafi leitað til hans til að fá upplýsingar um hvort honum væri heimilt að sitja fundinn þótt óboðinn væri. Hann hafi síðan fengið staðfest að svo væri ekki.

„Aðalfund LÍÚ sitja bara boðsgestir, fulltrúar fjölmiðla og þeir sem eru kjörgengir aðalfundarfulltrúar útvegsmanna. Þannig hefur það ávallt verið." - shá








Fleiri fréttir

Sjá meira


×