Innlent

Vegtollar út frá Reykjavík í skoðun

Vegtollur á allar stofnbrautir út úr Reykjavík, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, er nú til skoðunar í viðræðum stjórnvalda og lífeyrissjóða um fjármögnun á breikkun Suðurlandsvegar.

Í viðræðunum liggur þegar fyrir sú forgangsröðun að breikkun Suðurlandsvegar milli Lögbergsbrekku og Selfoss verði fyrst á dagskrá en síðan komi Vaðlaheiðargöng og þar á eftir breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Enn síðar verði Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Hugmyndin er að lífeyrissjóðir láni til verkefnanna en fái endurgreitt með vegtollum, eins og tíðkast í Hvalfjarðargöngum. Við nánari skoðun hafa menn hallast að því það gæti verið hæpið út frá jafnræðissjónarmiðum, og pólitísk erfitt, að fá Sunnlendinga til að sætta sig við vegtoll á Suðurlandsvegi en sleppa honum á sama tíma á nýbreikkaðri Reykjanesbraut.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, staðfestir að þetta sjónarmið sé í umræðunni, að óeðlilegt sé að veggjald færi eingöngu á Suðurlandsveg, heldur gæti verið eðlilegra að það færi þá á allar stofnbrautir út frá Reykjavíkursvæðinu, og þá einnig á Reykjanesbraut og Vesturlandsveg. Indriði tekur fram að ekkert sé ákveðið í þessum efnum og engin stefna hafi verið mörkuð í þessa veru.

Veggjald yrði einnig tekið upp við Vaðlaheiðargöng.

Ekkert liggur fyrir um fjárhæðir veggjalda né innheimtuform en sérfræðingum fjármálaráðuneytis hefur verið falið að útfæra þessar hugmyndir nánar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×