Innlent

Klæðning fékk 130 milljónir frá Kópavogsbæ

Helga Arnardóttir skrifar

Verktakafyrirtækið Klæðning, sem var í eigu Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra Kópavogs til ársins 2003, fékk tæpar hundrað og þrjátíu milljónir króna greiddar frá bænum fyrir ýmis verkefni á fjögurra ára tímabili. Þá hefur útgáfufélagið Frjáls Miðlun, sem er í eigu dóttur bæjarstjórans, fengið hátt í sjötíu milljónir króna frá bænum síðustu fjórtán ár. Helga Arnardóttir.

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs tók sæti í bæjarstjórn árið 1990 og hefur setið þar frá þeim tíma. Hann stofnaði hins vegar verktakafyrirtækið Klæðningu árið 1986 og var framkvæmdastjóri þess til 2003, þegar hann seldi sinn hlut.

Klæðning ehf. fékk 25 verkefni í jarðvegsvinnu, gatnagerð og öðru hjá Kópavogsbæ á árunum 1997-2001. Af tuttugu og fimm verkefnum á þessu tímabili fóru tvö þeirra í útboð.

Í gögnum sem Samfylkingin í bæjarstjórn Kópavogs óskaði eftir frá bæjaryfirvöldum árið 1999 -2002 eru verkin sundurliðuð og greiðslur bæjarins til Klæðningar koma þar fram.

Árið 1997 var Klæðning með fjögur verkefni fyrir Kópavog og fékk tæpar fjórtán milljónir fyrir.

Árið 1998 var fyrirtækið með tvö verkefni og fékk tæpar tólf milljónir.

Árið 1999 var það með fjögur verkefni og fékk rúmar tuttugu og tvær milljónir

Árið 2000 var það með fimm verkefni og fékk tæpar sextán milljónir.

Árið 2001 var Klæðning í heldur fleiri verkefnum en fyrri ár eða í tíu talsins og fékk rúmlega sextíu og sex milljónir króna frá bænum.

Heildargreiðslur Kópavogsbæjar til Klæðningar á þessum fimm árum voru því tæpar hundrað og þrjátíu milljónir.

En útgáfufélagið Frjáls Miðlun ehf. í eigu Brynhildar Gunnarsdóttur, dóttur bæjarstjórans og eiginmanns hennar hefur einnig unnið fjölmörg útgáfutengd verkefni fyrir Kópavogsbæ. Félagið var stofnað í október 1990 sama ár og Gunnar I. Birgisson tók sæti í bæjarstjórn. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fyrirtækið séð um ýmis konar verkefni fyrir bæinn allt frá 1991.

Greint hefur verið frá rúmlega fimmtíu og einni milljón króna sem Frjáls Miðlun hefur fengið í greiðslur frá bænum á árunum 2000-2009. Fréttastofa hefur hins vegar ný gögn undir höndum sem sýna greiðslur bæjarins til fyrirtækisins lengra aftur í tímann.

Frá 1995 til 1999 fékk Frjáls miðlun greiddar tæpar 18 milljónir króna frá Kópavogsbæ. Það bætist svo við rúmlega fimmtíu og eina milljón sem fyrirtækið fékk greitt frá bænum frá 2000-2009. Heildargreiðslur bæjarins til fyrirtækisins á þessum fjórtán árum eru því tæpar 70 milljónir króna. Tekið skal fram að þetta er allt með virðisaukaskatti.

Fyrirtæki sem var í eigu bæjarstjórans og annað í eigu dóttur hans hafa því fengið tæpar 200 milljónir frá Kópavogsbæ.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×