Íslenski boltinn

Marel Baldvinsson: Hafa hugmyndaflugið í lagi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Marel hér í baráttunni í kvöld.
Marel hér í baráttunni í kvöld. Mynd/Anton
„Það hafa örugglega ekki mörg lið komið hingað og verið svona þétt varnarlega. Ég og Helgi vorum fremstir og vorum fyrir aftan miðju," sagði kátur Marel Baldvinsson eftir sigur sinna manna í Kópavogi í kvöld.

„Við unnum þetta vel varnarlega því við vitum að Blikar eru með eitt best spilandi lið í deildinni. Við vissum að við yrðum í vandræðum ef við myndum opna okkur á móti þeim. Þetta var uppleggið, að liggja langt til baka, vera þéttir og vera með varnarfærsluna í lagi og við gerðum það virkilega vel í dag því þeir náðu ekkert að opna okkur. „

„Sóknarhluturinn af planinu gekk ekki alveg því við ætluðum að sækja hratt á þá en við fundum ekki menn þegar við unnum boltann. Þá kýldum við fram og töpuðum boltanum strax aftur. Við vorum þess vegna fyrst og fremst í varnarvinnu en þegar upp er staðið skipta það ekki máli því við skoruðum eitt og þeir ekki neitt. Við erum sáttir við gríðarlega mikilvæg þrjú stig," sagði Marel.

Marel er vanur því að klæðast grænu á Kópavogsvellinum og gat ekki neitað því að það hafi verið furðulegt að klæðast rauðu á gamla heimavelli sínum.

„Það var furðuleg tilfinning, aðallega fyrir leikinn að fara inn í klefa gestaliðsins en ekki heimaliðsins eins og maður er vanur. Þegar leikurinn var hafinn gleymdi maður því og þá var þetta bara leikur sem maður reyndi að vinna," sagði Marel sem lét stuðningsmenn Blika ekki slá sig útaf laginu.

„Ég reyndi ekki að gera það og hafa bara gaman að því. Þeir eru með hugmyndaflugið í lagi, þeir mega eiga það. Þetta er magnað uppátæki," sagði Marel og vísaði þar til peningsins margfræga sem birtur var hér á Vísi.is fyrr í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×