Innlent

Bólusetning raskast verulega

Bólusetning Áætlun um bólusetningu gegn svínaflensu raskast vegna skorts á bóluefni.
Bólusetning Áætlun um bólusetningu gegn svínaflensu raskast vegna skorts á bóluefni.

Skortur er á bóluefni gegn svínaflensu hér á landi. Upphaflega var gert ráð fyrir að alls bærust 200 þúsund skammtar til landsins til áramóta en nú eru horfur á að þeir verði um 170 þúsund. Fyrirsjáanlegt er að áætlun um bólusetningu almennings gegn inflúensunni raskast verulega.

Samkvæmt tilkynningu sóttvarnalæknis taka heilsugæslustöðvar ekki við fleiri tímapöntunum í bólusetningu fyrr en 15. desember, fyrir það bóluefni sem þá verður dreift. Starfsfólk heilsugæslustöðva bólusetur áfram með því bóluefni sem það hefur til umráða, á meðan það endist.

Ástæður tafa við afhendingu bóluefnisins eru minni framleiðslugeta framleiðandans en áætlað var, vandamál sem tengjast innpökkun bóluefnis og fleira. Vandinn snertir alla sem bíða eftir bóluefninu, ekki aðeins Íslendinga.

Nú þegar hafa verið bólusettir um sjötíu þúsund manns hérlendis.

Mjög hefur dregið úr inflúensu­faraldrinum en landsmenn eru samt eindregið hvattir til þess að láta bólusetja sig þegar því verður við komið.

81 árs gamall karlmaður lést úr svínaflensu hér á föstudag. Áður hafði átján ára fjölfötluð stúlka látist af völdum hennar.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×