Innlent

„Ég er svöng"

„Ég er svöng,“ sagði Margrét þegar hún gerði athugasemdir við fundarstjórn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, á þingfundi fyrr í dag.
„Ég er svöng,“ sagði Margrét þegar hún gerði athugasemdir við fundarstjórn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, á þingfundi fyrr í dag. Mynd/Daníel Rúnarsson
Annarri umræðu um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna var fram haldið á Alþingi í morgun. Þegar leið á umræðuna hvatti formaður Hreyfingarinnar forseta Alþingis til þess að gera matarhlé þar sem hún væri svöng. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði að um réttlætismál væri að ræða. Þingmenn ættu að fá matarhlé.

Sex voru á mælendaskrá þegar þingfundi var slitið í gærkvöld en frá því önnur umræða hófst um málið má segja að stjórnarandstöðuþingmenn hafi talað samfleytt fyrir hálftómum sal. Á meðan bíða fleiri brýn mál meðferðar eins og fjárlögin, breytingar á skattkerfinu og tekjuöflun ríkisins. Þingfundur hófst að nýju klukkan hálf ellefu í morgun.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu athugasemdir við fjarveru ráðherra og stjórnarliða. Þegar leið á daginn gerðu þeir auk þess athugasemdir við fundarstjórn forseta og tilhögun þingfundarins. „Frú forseti. Mér er vandi á höndum. Ég er þjóðkjörin fulltrúi og mér er skylt að sækja þingfundi en ég er svöng. Því vil ég beina þeim tilmælum til háttvirts forseta að hann geri hlé á þessum þingfundi svo við getum öll nærst," sagði Margrét Tryggvadóttir, formaður Hreyfingarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði um réttlætismál væri að ræða. Þá benti hann á þá staðreynd að enginn stjórnarliði væri á mælendaskrá.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að Alþingi væri furðulegur vinnustaður.

Þingflokksformannafundur verður haldinn síðar í dag til að ræða þinghaldið. Nú er 17 þingmenn stjórnarandstöðunnar á mælendaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×