Innlent

Skattar á millitekjufólk gæti orðið minni

Höskuldur Kári Schram skrifar

Ríkisstjórnin hefur enn ekki lokið við að móta tillögur sínar í skattamálum. Skattahækkanir á millitekjufólk gætu þó orðið minni en upphaflega var gert ráð fyrir.

Ríkisstjórnin hefur unnið að því undanfarna daga að móta tillögur í skattamálum. Ljóst er að skattar hækka um rúma 50 milljarða króna á næsta ári.

Fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um þær tillögur sem þingmenn og embættismenn hafa verið að kasta á milli sín á fundum.

Rætt hefur hefur verið um þriggja þrepa skattkerfi þar sem staðgreiðsla skatta hjá þeim sem eru með laun yfir 500 þúsund krónur á mánuði gæti orðið allt að 47 prósent. Skattur á millitekjufólk - með laun á bilinu 250 til 500 þúsund krónur verði 41 prósent og 36 prósent skattur á laun undir 250 þúsund krónum.

Ekkert hefur þó verið ákveðið í þessum efnum. Þingflokkur vinstri grænna ætlar að funda á morgun en ekki var búið að boða til fundar hjá samfylkingunni.

Meðal þess sem nú er rætt um er að hækka milliþrepið upp í 550 þúsund krónur jafnvel 600 þúsund. Þá hefur einnig komið til tals að lækka skattprósentu í miðþrepi um hálft prósentustig. Sem þýðir að skattur á millitekjufólk verði 40,5 prósent.

Annað sem menn eru einnig að skoða er samsköttun hjóna og einnig hvaða leiðir eigi að fara í orkusköttum. Nú þegar er búið að slá útaf borðinu virðisaukaskattshækkun á bókum og geisladiskum.

Ennfremur er verið að skoða skattlagningu á séreignasparnaði sem og hækkun virðisaukaskatts á veitingastöðum.

Ekki liggur þó fyrir hvenær endanlegar tillögur verða kynntar almenningi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×