Íslenski boltinn

Matthías Vilhjálmsson: Lélegasta víti sem ég hef séð tekið á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson í leik með FH í sumar.
Matthías Vilhjálmsson í leik með FH í sumar. Mynd/Valli

Matthías Vilhjálmsson fékk gullið tækifæri til þess að innsigla sigur FH á Keflavík í Pepsi-deildinni en lét verja frá sér víti í stöðunni 2-1 fyrir FH. Keflavík nýtti sér það og tryggði sér jafntefli í lokin.

„Þetta er lélegasta víti sem ég hef séð tekið á Íslandi en svona er þetta stundum," sagði FH-ingurinn Matthías Vilhjálmsson svekktur í leikslok. Hann lét Lasse Jörgensen verja frá sér víti á 85.mínútu leiksins.

„Við komum til baka eins og oft áður en þess vegna er mjög svekkjandi að missa þetta aftur niður. Mér fannst við vera miklu betri en þeir í þessum leik og í fyrri hálfleik áttum við mýgrút af færum en svona er þetta bara," sagði Matthías.

Matthías lék í stöðu hægri bakvarðar í þessum leik þar sem að Guðmundur Sævarsson er meiddur og Pétur Viðarsson var í leikbanni.

„Það var allt í lagi að spila í bakverðinum. Ég var smá ryðgaður til að byrja með en síðan vann ég mig inn í þetta. Ég geri bara það sem þjálfarinn minn segir mér að gera," sagði Matthías og hann er til í að taka næsta víti. "Ég er til í það en ég veit ekki hvað hinir mennirnir í liðinu segja við því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×