Innlent

Fyrrum tengdaforeldrar sýknaðir af þjófnaði

Hæstiréttur
Hæstiréttur

Fyrrum tengdaforeldrar þrítugrar stúlku voru í dag sýknaðir af kröfu um miskabætur en voru dæmdir til þess að greiða henni rúmar tólf þúsund krónur. Tengdaforeldrarnir voru einnig sýknaðir af kröfu um afhendingu muna sem þeir tóku af heimili stúlkunnar.

Fyrrum sambýlismaður stúlkunnar, sonur hjónanna, lést af slysförum árið 2000. Skömmu eftir fráfallið fór stúlkan erlendis en tengdaforeldrarnir brutust þá inn á heimili hennar og fjarlægðu muni sem þeir töldu að væru í eigu sonar síns.

Eitthvað af mununum sagði stúlkan að foreldrar sínir hefðu framselt henni og væru því í hennar eigu. Einnig var um að ræða muni sem hún hafði átt í sameign með fyrrverandi sambýlismanninum.

Hæstiréttur féllst á að tengdaforeldrarnir hefðu brotið gegn stúlkunni með því að brjóta upp lás á íbúðinni og farið inn í hana. Hinsvegar þótti ósannað að þau hefðu tekið í sínar vörslur þá muni sem er rætt.

Þá var jafnframt talið að hjólbarðar og nánar tilgreind húsgögn og rafmagnstæki hefðu verið greidd af fyrrum sambýlismanninum og væru því í eigu dánarbús hans.

Tengdaforeldrarnir voru því sýknaðir af kröfu stúlkunnar um afhendingu á kertastjaka fyrir sprittkerti, sykurstauk, stálskál, gullarmbandi, rauðri möppu með persónulegum gögnum sínum og eldhúsborði úr gleri frá Ikea.

Hún var síðan dæmd til þess að greiða fyrrum tengdaforeldrum sínum 1.620.000 krónur í málskostnað.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×