Innlent

Erfiðar ráðstafanir en óumflýjanlegar

„Það má finna ýmislegt að þessum ráðstöfunum - þær eru erfiðar en óumflýjanlegar,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um bandorminn.
„Það má finna ýmislegt að þessum ráðstöfunum - þær eru erfiðar en óumflýjanlegar,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um bandorminn.

Alþingi Frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í ríkisfjármálum, svonefndur bandormur, var samþykktur á Alþingi í gær. Frumvarpið kveður á um skattahækkanir og samdrátt í ríkisútgjöldum og miðar að því að bæta afkomu ríkissjóðs um 22 milljarða króna á þessu ári og 63 milljarða á því næsta.

Allir viðstaddir þingmenn stjórnarflokkanna, 31 að tölu, greiddu atkvæði með en sextán stjórnarandstæðingar greiddu atkvæði gegn því. Aðrir þingmenn voru fjarstaddir.

Þrír þingmenn stjórnarandstöðu gerðu grein fyrir atkvæði sínu og gagnrýndu frumvarpið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frumvarpið ganga gegn meginhugmyndum flokksmanna um leiðir út úr kreppunni og vísaði til efnahagstillagna flokksins sem kynntar voru fyrr í mánuðinum.

„Við höfum bent á það að með annarri aðferðafræði, með annarri nálgun, þá væri hægt að koma sér undan því að ganga jafnhart fram gegn eldri borgurum og öryrkjum eins og gert er í þessu máli,“ sagði Bjarni.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagðist ekki geta stutt frumvarpið jafnvel þótt breytingar á því á síðustu metrunum hefðu verið til bóta.

„Við teljum að þetta frumvarp sé algjörlega í anda og eftir forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Borgarahreyfingarinnar, og gagnrýndi niðurskurð í velferðarkerfinu. „Er þetta ekki ríkisstjórnin sem ætlaði að standa vörð um velferðina?“ spurði hún.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra varði frumvarpið. „Það má að sjálfsögðu finna ýmislegt að þessum ráðstöfunum - þær eru erfiðar en óumflýjanlegar,“ sagði hann og undraðist afstöðu sjálfstæðismanna. „Það er umhugsunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera á því stigi í tilveru sinni að hann leggist gegn óumflýjanlegum og brýnum aðgerðum til þess að ná tökum á ríkisfjármálum,“ sagði hann.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, sagði frumvarpið fyrst og fremst snúast um að falla frá útgjöldum og skattalækkunum sem ráðist var í á hátindi góðærisins og sagan sýndi að Íslendingar hefðu ekki efni á. Ríkissjóður væri rekinn með 500 milljóna króna halla á dag og frumvarpið væri mikilvægt til að snúa þeirri þróun við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×