Innlent

Ísland sagt eitt af fimm hættulegustu löndum heims

Óli Tynes skrifar

Það eru að hefjast vorfrí í bandarískum skólum. Því fagna nemendur með því að flykkjast milljónum saman til annarra landa og djúsa þar og djamma eins og það sé að koma heimsendir.

Fox sjónvarpsstöðin fór að hafa af því áhyggjur hvað gæti komið fyrir dauðadrukkin ungmenni í þessum hryðjuverkaheimi sem við búum í.

Það voru kallaðir til tveir sérfræðingar sem nefndu fimm varasöm lönd.

Mexíkó var náttúrlega nefnd vegna eiturlyfjastríðsins. Þar finnast mörg höfuðlaus lík liggjandi í götunni á hverjum degi.

Indland var nefnt vegna grimmra hryðjuverkaárása undanfarið. Og svo kom rúsínan í pylsuendanum.

Ísland var talið hættulegt heimsóknar vegna búsáhaldabyltingarinnar. Ferðamálafræðingarnir sögðu að þegar mikið af reiðu fólki væri á götunum að mótmæla væri hættulegt að koma nálægt.

Líklega þyrfti einhver að koma þeim skilaboðum til Fox fréttastofunnar að pottarnir og sleifarnar séu nú komnar á Þjóðminjasafnið og hættan því liðin hjá.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×