Innlent

Fyrirtæki þingmanna skila ársreikningi illa

Alþingismenn eru í dag tengdir færri fyrirtækjum en fyrir kosningarnar í apríl, en eiga samt hluti í fleiri félögum en áður. Algengast er að þingmenn tengist fyrirtækjum með stjórnarsetu.FRéttablaðið/Vilhelm
Alþingismenn eru í dag tengdir færri fyrirtækjum en fyrir kosningarnar í apríl, en eiga samt hluti í fleiri félögum en áður. Algengast er að þingmenn tengist fyrirtækjum með stjórnarsetu.FRéttablaðið/Vilhelm

Af 52 félögum sem núverandi alþingismenn tengjast eiga 15 enn eftir að skila inn ársreikningi fyrir árið 2007 til ásreikningaskrár. Skilafrestur rann út 31. ágúst 2008.

Ofangreint kemur fram í nýrri skýrslu sem Creditinfo Ísland vann fyrir Fréttablaðið um þátttöku þingmanna í atvinnulífinu. Byggir niðurstaðan á skráningu í hlutafélagaskrá og ársreikningum sem skilað er til ársreikningaskrár.

Í dag tengjast alþingismenn samtals 52 félögum, ýmist sem eigendur, stjórnarmenn, prókúruhafar eða slíkt. Samkvæmt Credit­info eru upplýsingarnar ekki tæmandi, ekki sé tekið tillit til stöðu maka þingmannanna, stundum sé ekki upplýst um eignarhald í ársreikningum og þess utan hafi um 20 prósent allra fyrirtækja ekki enn skilað inn ársreikningum. Í tilfelli fyrirtækja sem vitað sé að alþingismenn tengist sé vanskilahlutfallið þó enn hærra en gengur og gerist, eða 29 prósent. „Þingmenn Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar tengjast flestum þessara fyrirtækja, eða fjórum hjá hvorum flokki,“ segir í skýrslu Creditinfo.

Creditinfo hefur áður gert sambærilega skýrslu fyrir Frétta­blaðið um þátttöku alþingismanna í atvinnulífinu. Fréttir um þá skýrslu birtust í blaðinu í apríl síðastliðnum. Kosið var til Alþingis á milli þess sem skýrslurnar voru gerðar. „Þingmenn eru með þátttöku sinni tengdir 52 fyrirtækjum skráðum í Hluta­félaga­skrá. Fyrir rúmlega ári síðan tengdust þingmenn 70 fyrirtækjum með þeim hætti,“ segir Creditinfo sem ekki getur upplýst hvaða þingmenn tengjast hvaða fyrirtækjum vegna synjunar Persónuverndar á slíku. Þótt fyrirtækjum sem þingmenn eru tengdir hafi fækkað eiga þeir hlut í fleiri fyrirtækjum eftir kosningarnar og eignarhluturinn er stærri.

Gerðar voru athugasemdir af hálfu Vinstri grænna vegna fyrri skýrslu Creditinfo frá því í apríl. Þeir sögðu sumar upplýsingarnar varðandi þingmenn flokksins vera úreltar og rangar. Höfundar nýrrar skýrslu Creditinfo segja að samkvæmt lögum sé skylt að tilkynna breytingar á stjórnun félaga til hlutafélagaskrár innan eins mánaðar. „Misbrestur á slíku getur valdið sektum eða fangelsi,“ segir Creditinfo og ítrekar að það telji fyrri skýrsluna byggða á réttum gögnum og bendir jafnframt á að þeir sem skráðir séu stjórnar­menn samkvæmt hlutafélagaskrá hafi bæði rétt til að skuldbinda viðkomandi félög og þurfi að sæta refsiábyrgð ef því sé að skipta. „Ákvarðanir um breytingu á stjórn félaga sem teknar eru úti í bæ og öllum huldar hagga ekki slíkri ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×