Innlent

Landspítalinn fer 1200 milljónum fram úr fjárheimildum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landspítalinn. Mynd/ Vilhelm.
Landspítalinn. Mynd/ Vilhelm.
Það stefnir í að rekstur Landspítalans fari rúmum 1.200 milljónum fram úr fjárheimildum á þessu ári, þrátt fyrir miklar breytingar á starfsemi spítalans, launalækkanir og aðhald í innkaupum. Þetta segir Björn Zoëga, starfandi forstjóri spítalans, í pistli til starfsmanna hans. Björn segir að spítalinn hafi þó náð miklum árangri. Það hafi þurft að lækka rekstrarkostnað spítalans í ár um 2900 milljónir króna frá því í fyrra.

Björn segir að líklegast muni takast að hagræða fyrir um það bil 2600 milljónir á árinu en á móti komi að spítalinn hafi orðið fyrir um það bil 900 milljóna króna gengistapi umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir. „Þetta er auðvitað frábær árangur en við verðum að vera á tánum og halda áfram. Við stefnum að því að viðhalda öryggi sjúklinga okkar og vera áfram öryggisnet íslensku þjóðarinnar í heilbrigðismálum og næststærsta menntasetur landsins," segir Björn í pistlinum.

Björn segir að hagræðingarkrafa spítalans á næsta ári sé 3200 milljónir. Margt af því sem gert hafi verið á þessu ári skili sér í meiri hagræðingu á næsta ári. Margt af því sem stefnt sé að því að spara á næsta ári skili sér hins vegar ekki nema með samstilltu átaki allra starfsmanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×