Innlent

Framlögin yndislegt bænasvar

Þörfin fyrir starfsemi ABC barnahjálpar í Keníu hefur aukist undanfarið segir formaður barnahjálparinnar.
Fréttablaðið/AP
Þörfin fyrir starfsemi ABC barnahjálpar í Keníu hefur aukist undanfarið segir formaður barnahjálparinnar. Fréttablaðið/AP

Kröftug viðbrögð landsmanna í kjölfar neyðarkalls ABC barnahjálpar hafa orðið til þess að hægt verður að fjármagna starfsemi barnaheimilis í Keníu næstu mánuði, segir Guðrún Margrét Pálsdóttir, formaður ABC barnahjálpar.

Alls söfnuðust tæplega fjórar milljónir króna inn á reikning ABC, og hefur obbi þeirrar upphæðar farið í að greiða skuldir sem höfðu safnast upp og greiða rekstur mánaðarins, segir Guðrún.

„Þetta kom okkur verulega á óvart, þetta var yndislegt bænasvar,“ segir Guðrún. Hún segir neyðarkallið hafa verið síðasta hálmstráið, og það hafi skilað árangri langt umfram væntingar.

Að auki hafa bæst við um 300 þúsund krónur af mánaðarlegum greiðslum, sem renna munu til skólastarfsins. Guðrún segir að þessi viðbót sé þó ekki nægjanlega mikil til að fastar mánaðarlegar greiðslur landsmanna til ABC barnahjálpar dugi til að greiða allan fastan kostnað.

Afgangurinn af milljónunum sem söfnuðust ætti að duga til að borga mismuninn eitthvað áfram. Guðrún segist vonast til þess að þegar þær verði uppurnar hafi tekist að fjölga þeim sem greiði mánaðarlega.

„Þörfin er gríðarleg og hefur ekki minnkað, líklega hefur hún frekar aukist,“ segir Guðrún.

Hægt er að fá upplýsingar um hvernig styrkja má ABC á vef félagsins, www.abc.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×