Íslenski boltinn

Bjarni Jóhannsson: Unnum frábærlega vel út úr þessari stöðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Anton

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar var himinlifandi eftir 2-1 sigur á Fylki á gervigrasinu í Garðabæ í kvöld.

„Við unnum frábærlega vel út úr þessari stöðu. Við vorum fljótir að finna taktinn í varnarleiknum einum færri," sagði Bjarni en Stjörnuliðið var manni færri frá tíundu mínútu leiksins.

„Liðið brást ótrúlega rétt við þessu og við erum með dugnaðarstráka sem eru spenntir fyrir því að vera í úrvalsdeild þar sem þeir hafa fæstir verið áður," sagði Bjarni.

Þetta var annar leikurinn í röð þar sem Stjarnan missir markmann sinn útaf með rautt spjald. „Það var slys á móti FH og aftur slys núna en við unnum betur út þessarri stöðu núna. Ég hugsaði með mér að við værum bara að taka út verstu kaflana í þessum tveimur leikjum og svo væri það bara búið," sagði Bjarni um tilfinninguna að missa markmann útaf með rautt spjald annan leikinn í röð.

Stjarnan er búið að vinna fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum og Bjarni er að gera frábæra hluti með Garðabæjarliðið. „Það er greinilegt að drengjunum líkar miklu betur að vera í toppbaráttu heldur en í botnbaráttu. Við vonumst til að það endist eins lengi og mögulegt er.

Bjarni hrósaði að sjálfsögðu 16 ára markverði Stjörnuliðsins, Davíð Guðjónssyni, sem kom inn í erfiði stöðu og stóð sig eins og hetja. „Þessi innkoma Davíðs kom öllum á óvart og honum sennilega mest sjálfum," sagði Bjarni og bætti síðan við: "Það er síðan fermingarveisla um Hvítasunnuna hjá honum," sagði Bjarni í léttum tón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×