Íslenski boltinn

Ólafur: Töpuðum þessum leik ekki útaf gervigrasinu heldur hugarfarinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis. Mynd/Valli

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, þurfti að horfa upp á fyrsta tap sumarsins í Pepsi-deildinni þegar hans mönnum mistókst að nýta sér það að vera manni fleiri í 80 mínútur í 1-2 tapi fyrir Stjörnunni.

„Við áttum að gera betur í dag. Við gefum þeim auðvelt mark í byrjun, þar sem voru mistök á milli markmanns og varnarmanns sem skapar það mark. Þeir afgreiddu það samt vel. Við jöfnum þarna ekki mikið seinna en vorum síðan ekki nógu skynsamir að spila manni fleiri á móti þeim. Við náðum ekki að skapa okkur nægilega mörg færi til þess að skora fleiri mörk," sagði Ólafur.

Ólafur breytti ekki um leiðaðferð og bætti ekki í sóknina þrátt fyrir að liðið varð manni fleiri en sá ekki eftir því í leikslok. „Þetta snýst ekki um hvaða leikaðferð við erum að nota heldur aðeins um hugarfarið sem leikmenn koma með í leikinn. Við mættum ekki tilbúnir í þennan leik," sagði Ólafur.

Ólafur hefur aldrei verið hrifinn af því að spila á gervigrasi. „Ég vil láta banna þetta en það hefur ekkert með úrslit leiksins að gera. Það er meiðslahætta og annað sem fylgir þessu gervigrasi. Við töpuðum þessum leik samt ekki útaf gervigrasinu heldur töpuðum við honum út af okkar hugarfari," sagði Ólafur.

Fylkir var búið að fá tíu stig út úr fyrstu fjórum leikjum sínum í sumar. „Ég reiknaði alveg eins með því að við værum búnir að tapa einum leik en við vorum ekki búnir að því þannig að það var svekkjandi að fá hann hérna í kvöld. Við hefðum getað tryggt okkur toppsætið í kvöld," sagði Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×