Innlent

Biðjum Breta og Hollendinga um sanngjarna lausn

Heimir Már Pétursson skrifar
Forystumenn ríkisstjórnarinnar.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar. Mynd/Anton Brink
Fjármálaráðherra hélt í dag til Istanbúl í Tyrklandi á ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem hann mun eiga viðræður við forráðamenn sjóðsins og fjármálaráðherra Bretlands og Hollands um Icesave deiluna. Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni ekki springa á þessu máli en treysti sér ekki að svo stöddu að leggja það aftur fyrir Alþingi.

Forystumenn stjórnarflokkanna leggja mikla áherslu á að ljúka Icesave málinu sem fyrst, enda hangi svo margt annað í endurreisn efnahagslífsins saman við það. Fjármálaráðherra segir fundinn með stjórnarandstöðunni í morgun hafa verið betri en sams konar fund eftir að viðbrögð Breta og Hollendinga bárust fyrir nokkrum vikum. Viðræðum við þjóðirnar sé ekki lokið.

„Þetta eru þreifingar, tilraunir til að reyna að finna leiðir til lausnar í málinu," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Þetta sé gert án skuldbindinga að beggja hálfu þar til árangur hafi náðst. Þetta sé staðan í málinu í dag.

Forsætisráðherra segir óhjákvæmilegt að málið fari aftur fyrir Alþingi en það sé ekki komið í þann búning að ríkisstjórnin treysti sér til að leggja það fyrir þingið. Hún telur þó enga hættu á að ríkisstjórnin springi vegna málsins.

„Ef við fáum ásættanlega niðurstöðu sem þingflokkarnir treysta sér til að fara með fyrir þingið mun þessi ríkistjórn ekki springa á þessu máli, segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Það velti meira á því hvort ríkisstjórnin fái slíka niðurstöðu í viðræðum við Breta og Hollendinga að ríkisstjórnin treysti sér til að fara með málið fyrir Alþingi. „En ríkisstjórnin er ekki í hætti hvað varðar þetta mál," segir forsætisráðherra.

Jóhanna segir málið til meðferðar á mörgum stöðum en brugðið geti til beggja vona hvort samningar náist.

„Þeir vita hvað þetta er erfitt fyrir okkur og við erum bara að biðja Hollendinga og Breta um sanngjarna lausn á þessu máli. En það er alveg ljóst að málið hefur á síðustu einum til tveimur dögum verið okkur erfiðara en við töldum í upphafi," segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×