Innlent

Boða til sigurhátíðar á Austurvelli í dag

Raddir fólksins halda sinn sautjánda mótmælafund klukkan 15:00 á Austurvelli í dag. Í tilkynningu frá samtökunum er boðað til sigurhátíðar að þessu sinni þó enn eigi eftir að skipta út stjórn Seðlabanka Íslands.

„Í sautján vikur hafa Raddir fólksins barist gegn flokksræði og siðleysi í íslenskum stjórnmálum. Tugþúsundir Íslendinga hafa flykkst á Austurvöll til að knýja fram virkt lýðræði og nýja stjórnarskrá. Með samstilltu átaki fjöldans og einbeittum markmiðum hefur okkur tekist að ná glæsilegum áfangasigri. Ein óvinsælasta stjórn Íslandssögunnar er fallin, boðað hefur verið til kosninga og búið er að víkja stjórn Fjármálaeftirlitsins frá störfum," segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Eftir er þó lokavígi landráða og valdagræðgi í íslenskri flokkspólitík. Stjórn Seðlabankans situr enn. Þeir vanhæfu einstaklingar sem þar sitja verða að víkja tafarlaust og sæta ábyrgð fyrir embættisafglöp."

Ávörp á Austverlli í dag flytja þau Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur, Katrín Snæhólm Baldursdóttir listakona og Viðar Þorsteinsson heimsspekingur.

Fundarstjóri verður sem fyrr í höndum Harðar Torfasonar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×