Íslenski boltinn

Ómar fer í aðgerð á öxl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ómar Jóhannsson, markvörður Keflavíkur.
Ómar Jóhannsson, markvörður Keflavíkur. Mynd/Anton

Hætt er við því að Ómar Jóhannsson, markvörður Keflavíkur, spili lítið sem ekkert með sínum mönnum í sumar þar sem hann þarf að gangast undir aðgerð á öxl í byrjun næsta mánaðar.

„Það er stefnt að því að aðgerðin fari fram 11. mars en vonandi verður það fyrr," sagði Ómar sem meiddist upphaflega skömmu áður en Íslandsmótið hófst á síðasta tímabili.

„Skömmu fyrri mót fékk ég högg á öxlina og hún fór hálfa leið úr liðnum áður en hún hrökk sjálf aftur í lið," sagði Ómar. „Það gafst ekki tími til að laga þetta almennilega fyrir mót og því var ég að þjösnast á þessu allt sumarið. Það gerðist svo reglulega að öxlin fór hálfa leið úr liðnum við sérstakar hreyfingar."

„Þetta var þó ekkert stórvandamál í leikjum. Eftir tímabilið var svo ákveðið að reyna að laga þetta og þar sem ég hafði aldrei farið algerlega úr liðnum var ákveðið að reyna að styrkja öxlina með sjúkraþjálfun í stað þess að fara strax í aðgerð enda er það alltaf síðasta úrræðið."

„Mér fannst þetta svo ganga ágætlega. Ég tók þátt í æfingum með liðinu og þó svo ég hafi alltaf fundið aðeins fyrir þessu fannst mér þetta á réttri leið."

„Það var svo fyrir einni og hálfri viku síðan að ég var að verja skot og þurfti að teygja mig eftir boltanum. Þar með var ég ekki að verja öxlina og hún fór algerlega úr lið."

„Þá kom í ljós að það vandamálið er ekki í vöðvunum sem halda öxlinni í lið heldur er vefurinn sem er á milli kúlu og liðarins væntanlega eitthvað skaddaður. Það verður ekki lagað nema með aðgerð."

„Ég held að það sé ljóst að hvorki mér né liðinu sé einhver greiði gerður með því að láta mig þjösnast áfram á þessu. Það hlýtur að teljast galli fyrir markverði að eiga það á hættu að fara úr lið í hvert sinn sem boltinn kemur á markið," sagði hann í léttum dúr.

Ómar segir tímasetninguna vissulega afar slæma en nú sé það undir Magnúsi Þormari, varamarkverði Ómars, að standa vaktina í Keflavíkurmarkinu.

„Liðið mun lifa þetta af - það er alveg ljóst. Þetta er bara þeim mun leiðinlegra fyrir mig. Ég gerði mér miklar vonir fyrir tímabilið enda átti ég ágætis tímabil í fyrra. Ég var að verða nokkuð heill og sá ekki fram á annað en að eiga ágætis tímabil nú í sumar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×