Innlent

Stöðugleikasáttmáli gæti verið úr sögunni

Margt þarf að koma til svo að friður haldist á vinnumarkaði. Á þriðjudag tekur stjórn Samtaka atvinnulífsins ákvörðun um hvort kjarasamningar verða framlengdir.

Lítil bjartsýni ríkti meðal forsvarsmanna launþega og atvinnurekenda eftir að fundi þeirra með stjórnvöldum lauk í gærdag.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í gærkvöldi að verið væri að vinna úr fundinum og þoka málum áfram. Hann var frekar bjartsýnn en ekki. „Ég held að allir vilji halda áfram að reyna að koma þessu áfram en auðvitað er það svo í þeirra höndum að lokum hver niðurstaðan verður um kjarasamningana."

Spurður hvort til greina komi allsherjarstefnubreyting stjórnarinnar, til að friða vinnumarkaðinn, segist Steingrímur ekki telja að málið snúist um það.

„Ég held að þetta byggist nú á því hvort menn ná saman á þessum tímapunkti og glíma við þessar aðstæður. Aðalatriðið er að halda þessu áfram í góðri trú og góðum anda," segir hann.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að allt sé í óvissu. Allt of langt sé gengið í skattahækkunum. Heimili og fyrirtæki beri þær ekki. Tekjuforsendur fjárlaga gangi því ekki upp.

„Það hefur verið upplýst að það eru ekki áform uppi um að láta persónuafslátt hækka í samræmi við bæði lög og kjarasamninga. Það á að auka skattbyrði á þá tekjulægstu og það er alveg í andstöðu við markmið þessa sáttmála," segir hann. Persónuafsláttur þurfi að hækka um 6.600 krónur til að halda í við verðbólgu og annað.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að nú sé beðið eftir útspili ríkisstjórnarinnar. Hann vill, eins og Gylfi, að skattaáform verði endurskoðuð og þeir eru sammála um að fara þurfi í auknar framkvæmdir.

„Orkuskattar þurfa að fara út, gjaldeyrishöftin, vextir og sjávarútvegsmál. Við erum ekkert að gefast upp en þar er margt sem þarf að klárast til að við getum haldið þessu áfram," segir hann. - kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×