Innlent

Búrið verði jólagjöfin í ár

Einar Gunnar, sem hér sést ásamt Hlyni, syni sínum, í anddyri laugarinnar, er sáttur við árangur söfnunarinnar.fréttablaðið/arnþór
Einar Gunnar, sem hér sést ásamt Hlyni, syni sínum, í anddyri laugarinnar, er sáttur við árangur söfnunarinnar.fréttablaðið/arnþór

 „Við stefnum ótrauð á að fiskabúrið verði jólagjöfin í ár. Það vantar enn herslumuninn en við vonum að þetta gangi, og ætlum að láta þetta ganga," segir Einar Gunnar Guðmundsson, meðlimur í Mími, vináttufélagi Vesturbæjar. Söfnun fyrir nýju fiskabúri í anddyri Vesturbæjarlaugar, sem félagið hefur staðið fyrir undanfarið, lauk formlega í vikunni. Alls söfnuðust um 700.000 krónur.

Félaginu þykir mikill sjónarsviptir að fiskabúri sem tekið var niður úr anddyri laugarinnar árið 1985. Einar segir söfnunina hafa náð langt upp í markmiðið sem haft var að leiðarljósi í upphafi, en stefnan var að safna einni milljón króna. „Við erum mjög sátt. Enn höfum við ekki leitað til neinna fyrirtækja, en höfum í hyggju að hafa samband við nokkur valin fyrirtæki í Vesturbænum."

Að sögn Einars er næsta skref að hefja vinnu með arkitekt laugarinnar, í samvinnu við þá sem veita henni forstöðu.

„ÍTR hefur samþykkt að taka við rekstri fiskabúrsins eftir að við afhendum lauginni það. Sá rekstur ætti ekki að kosta nema um 10 til 15.000 krónur á mánuði. Vonandi verður þetta til að auka enn frekar aðsókn að lauginni," segir Einar og bendir þeim sem áhuga hafa á verkefninu á Face­book-síðu söfnunarinnar, sem ber titilinn Fiskabúr í anddyri Vesturbæjarlaugar. Þar sé allar upplýsingar að finna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×