Innlent

Barðastrandaránið: Bæjarstjóra mjög brugðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Mér er náttúrlega bara mjög brugðið við þessar fregnir. Þetta er bara skelfilegur atburður. Og það vill svo til að ég þekki þann sem að fyrir þessu varð mjög vel þannig að ég sendi honum auðvitað mínar bestu kveðjur," segir Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Ráðist var á roskinn úrsmið í gær og hann rændur á heimili hans á Seltjarnarnesi. Maðurinn sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann væri heppinn að lifa af. Jónmundur segir að öflug hverfagæsla hafi verið starfrækt á Seltjarnarnesi frá árinu 2005, samhliða þeirri almennu gæslu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir. Þetta hafi skilað því að innbrotatíðni hafi verið töluvert minni á Seltjarnarnesi en víðast annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu. Jónmundur sagði hins vegar að slík hverfagæsla útilokaði ekki að atvik að þessu tagi gætu hent.

Jónmundur segir að það sé vilji bæjaryfirvalda að axla ábyrgð á öryggi íbúanna. „Við höfum sagt það bæjaryfirvöld að við vildum, ásamt lögreglunni, axla ábyrgð við að standa vörð um hagsmuni og öryggi okkar íbúa og það var meðal annars ástæðan fyrir því að við fórum út í þessa hverfagæslu á sínum tíma," segir Jónmundur. Hann útilokar ekki að brugðist verið við atvikinu í gær með nýjum hætti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×