Innlent

Atvinnulausir fá ekki bætur í námi

Búast má við að margir atvinnulausir fari í nám í haust. Þeir geta ekki stundað fullt nám á bótum. Samkvæmt reglunum er sá sem stundar fullt nám ekki virkur í atvinnuleit og því getur hann ekki verið á atvinnuleysisbótum. Hann verður að sækja um námslán. Fréttablaðið/stefán
Búast má við að margir atvinnulausir fari í nám í haust. Þeir geta ekki stundað fullt nám á bótum. Samkvæmt reglunum er sá sem stundar fullt nám ekki virkur í atvinnuleit og því getur hann ekki verið á atvinnuleysisbótum. Hann verður að sækja um námslán. Fréttablaðið/stefán

Atvinnulausir eiga engan rétt til atvinnuleysisbóta meðan þeir eru í fullu námi þar sem reglur Vinnumálastofnunar kveða á um að fólk á atvinnuleysisbótum verði að vera virkt í atvinnuleit. Ef þeir eru í fullu námi teljast þeir ekki virkir í atvinnuleit. Atvinnulausir verða því að sækja um námslán ætli þeir að vera í fullu námi. Atvinnulausir geta hins vegar tekið eitt til tvö námskeið meðan þeir eru á bótum og eru þá virkir í atvinnuleit.

Atvinnulausir sem fara í fullt nám geta sótt um námslán hjá LÍN fyrir næsta vetur. Lægstu atvinnuleysisbætur eru tæplega 150 þúsund krónur á mánuði en námslán eru 100 þúsund krónur fyrir einstakling. Framfærsla námsmanna er svo lág þar sem gert er ráð fyrir því að þeir vinni fjóra mánuði á ári. Tekjurnar koma aðeins til fimm prósenta skerðingar.

Fyrirsjáanlegt er að margir námsmenn eiga á hættu að vera atvinnulausir í sumar og geta því ekki unnið til framfærslu með námsláni. Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir að verið sé að endurskoða reglurnar. Tekjumörkin vegna greiðslu fastrar afborgunar hafi þegar verið hækkuð úr 2,1 milljón í fjórar milljónir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Útlánareglurnar séu til endurskoðunar í ljósi þess að rýmka möguleika til náms en það myndi kosta LÍN minnst 155 milljónir að hækka grunnframfærslu í 150 þúsund.

„Fleiri ætla sér í nám og tekjumöguleikarnir eru líka minni en áður. Margir námsmenn fá sjálfsagt ekki vinnu í sumar,“ segir hún. „Þetta er allt til skoðunar og við stefnum að því að klára það í apríl,“ segir hún og telur möguleika til að fá viðbótarfjárframlag frá ríkinu ekki mikla. Guðrún segir að framfærslugrunnurinn sé meðal þess sem sé til skoðunar.

Fyrirsjáanlegt er fleiri munu sækja um námslán. Aukin eftirspurn verður eftir sumarnámi. Þá telur Guðrún að fleiri fari í nám, grunnháskólanám og sömuleiðis framhaldsnám. „Það er verið að fara í gegnum allt þetta og átta sig á því hvað er raunhæft að gera en að lokum stendur það og fellur með pólitíkinni,“ segir hún.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að kannað sé hvort hægt sé að hækka framfærslugrunninn hjá LÍN. Það verði varla gert nema að auka tekjutengingu. „Auðvitað viljum við finna leiðir til þess að þeir sem engar aðrar tekjur hafa fái hækkun á sinni framfærslu,“ segir hún.

ghs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×