Innlent

Vildi vita um afstöðu Kristjáns

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Kristján Þór.
Kristján Þór. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Kristján Þór Júlíusson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á þingfundi í dag út í afstöðu hans til frumvarps um ríkisábyrgð vegna Icesave. Sigmundur vitnaði til orða Lilja Mósesdóttur, þingmanns VG, sem sagði um helgina að óvissa um afstöðu sjálfstæðismanna til frumvarpsins í sumar hafi truflað suma þingmenn VG. Sjálfur sagðist Kristján ætla að standa í lappirnar.

„Getur þingmaðurinn staðfest að hann mun sýna staðfestu í þessu máli. Muni ekki gefa eftir hvað varðar þetta frumvarp sem hér er lagt fram heldur greiða atkvæði gegn því og aðrir þingmenn geti treyst því að á afstöðu hans er á að treysta," sagði Sigmundur Davíð.

Kristján sagði að unnið hafi verið með mismunandi hætti að afgreiðslu Icesave frumvarpsins í sumar. Það hafi verið einbeittur „brotavilji" ríkisstjórnarinnar að koma málinu í gegn. Vinna sjálfstæðismanna hafi miðast við að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð.

Þá sagðist Kristján ekki styðja frumvarpið. „Ég mun standa í lappirnar í þessu máli og treysti á þið gerið það líka framsóknarmenn," sagði þingmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×