Innlent

Segir málatilbúnaðinn „árás“

Gunnar fundar með Sjálfstæðisfélaginu á morgun.
Gunnar fundar með Sjálfstæðisfélaginu á morgun.

„Þetta er náttúrlega eins og flest sem þaðan kemur; uppdikterað og margfaldað með pí,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, um frétt Ríkisútvarpsins í gær um að hann hygðist á fundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs á morgun ræða greiðslur bæjarins til fyrirtækis dóttur hans.

Eins og fram hefur komið hefur bæjarráð Kópavogs falið endurskoðendum að kanna nánar viðskipti bæjarins við fyrirtækið Frjálsa miðlun sem hefur fengið greiddar ríflega 51 milljón króna frá árinu 2000. Frjáls miðlun er í eigu dóttur Gunnars og eiginmanns hennar.

Gunnar segir löngu ákveðið að á fundi sjálfstæðismanna á morgun fari hann yfir stöðu mála í Kópavogi og undirbúning fyrir kosningar á næsta ári. Þótt hann muni ekki ræða viðskipti Kópavogsbæjar og Frjálsrar miðlunar á fundinum fari hann sjálfsagt yfir þá „árás“ sem málatilbúnaðurinn sé.

„Ég fer yfir hvernig taktíkin er frá Samfylkingu og sumum fjölmiðlum í þessu máli sem er mjög sérkennileg,“ segir Gunnar sem aðspurður kveður félaga sína í Sjálfstæðisflokknum ekki vera að heimta af honum skýringar. „Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur upp heldur gerist það á þriggja til fjögurra ára fresti – sérstaklega þegar fer að nálgast kosningar,“ segir Gunnar sem kveðst sem fyrr ætla að bíða úttektar endurskoðenda áður en hann tjáir sig um málefni Frjálsrar miðlunar: „Þá sést þetta svart á hvítu.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×