Lífið

Aldrei fór ég á Rex um helgina

Trúbadorinn knái Svavar Knútur skipuleggur tónlistarhátíðina Aldrei fór ég á Rex um helgina.
Trúbadorinn knái Svavar Knútur skipuleggur tónlistarhátíðina Aldrei fór ég á Rex um helgina. NMYND/Fréttablaðið/heiða
Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég á Rex verður haldin á þremur stöðum um helgina. Um er að ræða órafmagnaða hátíð þar sem tæplega fjörutíu tónlistaratriði verða kynnt til sögunnar. Verða þau mestmegnis í höndum trúbadora.

„Yfirskriftin er Aldrei fór ég á Rex en við bjóðum samt fólk alveg velkomið sem hefur farið á Rex,“ segir skipuleggjandinn og trúbadorinn Svavar Knútur. „Ég fagna því að ruglið er svolítið að víkja. Ég vona að þetta sé í síðasta skipti sem við Íslendingar erum í stórum kappakstri og að tími lúxusbíla og fyrirtækja-„sponsora“ sé að víkja,“ segir hann og vonar að samhjálp og nægjusemi taki nú völdin í þjóðfélaginu.

Sams konar hátíð var haldin í fyrsta sinn hérlendis síðasta haust við góðar undirtektir. Þá var hún minni í sniðum, enda aðeins haldin á Kaffi Rósenberg en núna hafa Hljómalind og Nýlenduverslun Hemma og Valda bæst í hópinn. Á meðal þeirra sem koma fram eru Helgi Valur, Myrra Rós, Árstíðir, Elíza Geirs, Ragnar Sólberg, Elín Ey, Svavar Knútur og Pikknikk. Einnig koma fram bresku trúbadorarnir Sisha PM og Kid Decker.

Svavar segir að hátíðin sé haldin til að efla grasrótina og skapa tengsl við erlenda listamenn, enda hefur sams konar hátíð verið haldin í Ástralíu og Þýskalandi. Eftir hátíðina hyggur Svavar til að mynda í tónleikaferðalag um Þýskaland og Ítalíu í von um að skapa enn frekari tengsl.

Ókeypis er inn á Aldrei fór ég á Rex og verða fyrstu tónarnir slegnir á Kaffi Rósenberg á föstudag klukkan 19.- fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.