Íslenski boltinn

Umfjöllun: Svart og hvítt hjá KR-ingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Mynd/Daníel

KR byrjar vel í Pepsi-deildinni í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á Fjölni í opnunarleik mótsins í gær. KR-ingar lentu reyndar undir í fyrri hálfleik en tóku sig saman í andlitinu í þeim síðari og unnu sanngjarnan 2-1 sigur.

Það var hins vegar heldur ósanngjörn meðferð sem gestirnir úr Grafarvoginum fengu undir lok leiksins. Hinn átján ára Aron Jóhannsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir afar litlar sakir í uppbótartíma leiksins.

Hann var dæmdur brotlegur fyrir að toga Guðmund Pétursson niður en hann var þá við það að komast einn gegn markverði Fjölnismanna.

„Ég sá hann ekki brjóta af sér," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis. „Dómarinn var 2-3 metrum frá atvikinu en lætur aðstoðardómarann - sem er 30 til 40 metrum frá - reka manninn út af. Ég set stórt spurningarmerki við það."

Ásmundur sagði ungu leikmennina sína fá slæma meðferð í leiknum en annar átján ára Fjölnismaður, Geir Kristinsson, fékk áminningu snemma leiks. „Það var fyrir mjög litlar sakir. Á sama tíma fengu leikmenn KR viðvörun og þeim sagt að passa sig. En Geir og Aron eru ungir og óreyndir og auðveldara að gera eitthvað við þá."

Sem fyrr segir komst Fjölnir yfir í fyrri hálfleik og átti svo tök á því að komast í 2-0 snemma í þeim síðari er Aron slapp einn inn fyrir vörn KR. Hann skaut hins vegar yfir markið.

Aðeins mínútu síðar kom jöfnunarmark KR og stuttu síðar sigurmark Jónasar Guðna Sævarsson, fyrirliða KR. „Eftir dauðafærið gáfum við eftir og þeir skoruðu. Eftir það óx þeim ásmegin en loftið fór úr okkur."

Logi Ólafsson, þjálfari KR, var ánægður með stigin þrjú en ekki frammistöðuna í fyrri hálfleik. „Við töpuðum nánast öllum tæklingum í vörninni og boltinn gekk ekki vel á milli manna. Við ræddum svo málin í leikhléinu og komumst að því að það var engin ástæða til að vera í neinu stressi. Við þurftum bara að gera það sem við erum góðir í en það er að spila boltanum. Við skoruðum svo tvö mörk sem komu bæði eftir laglegan samleik."

Logi segir að þeir geri þá kröfu að vinna Fjölni á heimavelli. „Það hefði verið gríðarlega slæmt að tapa. Undir venjulegum kringumstæðum eigum við að vinna Fjölni á heimavelli. Sem betur fer tókst það."

KR hefði vel getað skorað fleiri mörk undir lok leiksins og hefði sigurinn hæglega getað orðið stærri. Fjölnir fékk einnig fáein tækifæri til að jafna metin en allt kom fyrir ekki. Sanngjarn sigur KR er niðurstaðan.

KR - Fjölnir 2-1

0-1 Jónas Grani Garðarsson (33.)

1-1 Björgólfur Takefusa (56.)

2-1 Jónas Guðna Sævarsson (63.)

KR-völlur. Áhorfendur: 1899

Dómari: Jóhannes Valgeirsson (6)

Skot (á mark): 18-9 (11-4)

Varin skot: Stefán Logi 3 - Þórður 8.

Horn: 9-4

Aukaspyrnur fengnar: 11-19

Rangstöður: 3-1

KR (4-4-2):

Stefán Logi Magnússon 7

Skúli Jón Friðgeirsson 6

Bjarni Guðjónsson 6

Grétar Sigurðarson 7

Jordao Diogo 6

Óskar Örn Jónsson 5

Baldur Sigurðsson 6

(74. Guðmundur Pétursson -)

Jónas Guðni Sævarsson 7 - maður leiksins

Gunnar Örn Jónsson 6

(62. Atli Jóhannsson 6)

Björgólfur Takefusa 7

(84. Guðmundur Benediktsson -)

Prince Rajcomar 6

Fjölnir (4-5-1):

Þórður Ingason 7

Gunnar Valur Gunnarsson 5

Ólafur Páll Johnson 5

Geir Kristinsson 5

Vigfús Arnar Jósepsson 5

(85. Andri Valur Ívarsson -)

Aron Jóhannsson 7

Illugi Gunnarsson 6

(80. Ásgeir Aron Ásgeirsson -)

Gunnar Már Guðmundsson 4

Magnús Ingi Einarsson 5

Tómas Leifsson 4

(75. Guðmundur Karl Guðmundsson -)

Jónas Grani Garðarsson 6


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×