Innlent

Maður látinn eftir að vél var flogið á línu við Selá

Einn maður er látinn og annar lífshættulega slasaður eftir að fjögurra sæta Cessna-vél flaug á raf­línur rétt við veiðihúsið Hvammsgerði við Selá í Vopnafirði.

„Það er ekkert sem bendir til bilunar í vél. Mennirnir hafa líklega misreiknað flughæðina," segir Björn Sigurbjörnsson slökkviliðsstjóri á Vopnafirði.

Hann segir að vélin hafi verið nýtekin á loft frá flugvellinum á Vopnafirði, en veiðihúsið er tólf til þrettán kílómetra norður af þorpinu.

Gestir í veiðihúsinu urðu vitni að slysinu og Baldur Friðriksson læknir á Vopnafirði segir að svo virðist sem mennirnir hafi verið að taka lítinn hring á leið sinni suður. „Það er ólíklegt að þeir hafi verið að reyna að lenda. Þarna er engin flugbraut, enginn bali eða tún eða neitt," segir Baldur. Mennirnir hafi sér virst vera á miðjum aldri.

Baldur segir að banaslys séu ávallt mikið áfall, en ekki síst í litlu þorpi þar sem langt er í stórar heilbrigðisstofnanir og engin teymi til staðar til að bregðast við svona hlutum. „Ef tveir slasast er það hópslys hjá okkur," segir hann. Presturinn á staðnum hafi veitt fólki áfallahjálp.

Vélin hafði lent á Vopnafjarðarflugvelli klukkan 14.35 og flugáætlun gerði ráð fyrir að hún færi þaðan aftur um klukkan 16. Slysið varð síðan rétt eftir klukkan 16, en til stóð að lenda vélinni á Tungubakka­flugvelli í Mosfellsbæ klukkan 18 í gær.

Sjúkraflug kom frá Akureyri og sótti þann sem lifði af. Flogið var með hann til Reykjavíkur á sjöunda tímanum.

Á Landspítala var ekki frekari upplýsingar að fá á tíunda tímanum í gærkvöldi en þær að maðurinn væri lífshættulega slasaður.

Hjördís Guðmundsdóttir hjá Flugstoðum, sem reka flesta flugvelli landsins, segir að flugáætlun vélarinnar og annað sem viðkomi Flugstoðum hafi allt verið með eðlilegu móti.

Hvorugur mannanna mun hafa verið frá Vopnafirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×