Innlent

Makríllinn gæti skilað mun meiri verðmætum

Kristján Már Unnarsson skrifar

Vinnslustöðvar víða um land búa sig nú undir að verka makríl í stórauknum mæli til manneldis, og fá þannig mörghundruð milljónum meira í útflutningsverðmæti. Makríll minnir á silung á bragðið og reyktur selst hann fyrir hátt verð erlendis. Útlitið og stærðin minnir á síld.

Menn töluðu um lóttóvinning þegar hann óvænt fór að veiðast íslenskri lögsögu í fyrra en það olympíukapphlaup sem stjórnvöld, hleyptu í gang milli útgerða síðastliðið vor, um að moka sem mestu upp á sem skemmstum tíma, þóttu mörgum til lítils sóma enda fór þá megnið í bræðslu.

Á Þórshöfn fullyrða menn að með því að vanda betur til verka megi stórauka verðmætið. Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn, segir makrílinn verðmætan fisk í háum verðum í Austur-Evrópu og hann geti skilað gríðarlegum verðmætum.

Þetta er herramannsmatur, ókryddaður eftir smástund í örbylgjuofni minnir hann á silung á bragðið. Víða í Evrópu, og einkum Austur-Evrópu, er góður markaður fyrir makríl og mörgum þykir hann bestur reyktur. Það er um háar fjárhæðir að tefla, fá mætti að minnsta kosti mörghundruð milljónum meira með því að vinna hann til manneldis heldur en bræða hann, áætlar Siggeir.

Sjávarútvegsráðherra verður hinsvegar að leggja línuna. Skýrar reglur verða að koma sem fyrst um veiðarnar, að mati Siggeirs, til að menn geti skipulagt sig fyrir næsta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×