Innlent

Ákvörðun um sumarannir í vikulokin

Samkvæmt könnun Stúdentaráðs gætu þúsundir háskólanema verið án atvinnu í sumar.
fréttablaðið/stefán
Samkvæmt könnun Stúdentaráðs gætu þúsundir háskólanema verið án atvinnu í sumar. fréttablaðið/stefán

„Það er vinna í gangi á öllum fræðasviðum og niðurstöður varðandi það hvað við getum boðið stúdentum upp á í sumar ættu að liggja fyrir í lok þessarar viku," segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands (HÍ). Samkvæmt könnun Stúdentaráðs HÍ gætu þúsundir háskólanema verið án atvinnu í sumar.

Könnun ráðsins var send til allra háskólanema landsins. Hildur Björnsdóttir, formaður ráðsins, segir marga stúdenta orðna örvæntingarfulla. „Könnunin sýndi meðal annars að 75 prósent þeirra sem svöruðu eru vonlitlir um að fá vinnu í sumar. Það hlýtur að vera ódýrara að setja upp sumarannir fyrir þetta fólk en að það fari allt á atvinnuleysisbætur eða eitthvað slíkt. Við ætlum ekki að gefast upp fyrr en við fáum þessu framgengt."

Kristín Ingólfsdóttir segir niður-stöður könnunarinnar vissulega áhyggjuefni, enda séu tölurnar sláandi. „Þetta er gríðarlega mikil breyting frá því sem hefur verið. Við viljum gera allt sem við getum til að koma til móts við þetta fólk, en við erum mjög aðþrengd fjárhagslega," segir Kristín. Hún bætir við að fjöldi nemenda hafi aukist gríðarlega undanfarið um leið og fjárveitingar til skólans hafi lækkað mikið. Jóhanna Gunnarsdóttir, ráðgjafi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN), segir starfsfólki berast margar fyrirspurnir um sumarlán þessa dagana. Farið verður yfir formlegar umsóknir þess efnis í lok apríl. „Okkur sýnist að margir stefni á nám í sumar. Það segir sig eiginlega sjálft þegar atvinnuleysi og slíkt er tekið inn í myndina," segir Jóhanna.

kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×