Innlent

Skattbyrðinni dreift með sanngjörnum hætti

Forseti Alþýðusambands Íslands hefur áhyggjur af áhrifum skattahækkana á kaupmátt og atvinnustig í landinu. Ríkisstjórninni hafi hins vegar tekist að dreifa skattbyrðinni með sanngjörnum hætti.

Alþýðusamband Íslands gagnrýndi harðlega skattaáform ríkisstjórnarinnar þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt í síðasta mánuði.

„Það er ljóst að umfangið á þessu er ennþá að okkar mati þannig að við höfum áhyggjur af því hvaða áhrif þetta kann að hafa á kaupmátt og eftirspurn og þar af leiðandi atvinnustig okkar félagsmanna," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Þannig að við höldum þeirri gagnrýni uppi en þó viðurkennum að ríkisstjórnin er að draga úr fyrri áformum mikið - eða þriðjung af þeim áformuðu skattahækkunum sem voru kynntar í fjárlagafrumvarpinu."

Ríkisstjórninni hafi tekist að dreifa skattbyrðinni með sanngjörnum hætti. „Og við fögnum því sérstaklega bæði að okkar umsamda hækkun á persónuafslætti kemur til framkvæmda og jafnframt að það hefur tekist að finna leið með því að setja þennan auðlegðarskatt á og að verja bæði vaxtabætur og barnabætur," segir Gylfi.




Tengdar fréttir

ASÍ telur skattahækkanir vera í takti við stöðugleikasáttmálann

Alþýðusamband Íslands telur að ríkisstjórnin hafi, við útfærslu beinna skattahækkana, staðið við markmið sem sett voru við gerð stöðugleikasáttmálans. ASÍ hefur áhyggjur af umfangi skattahækkananna á næsta ári og líklegum áhrifum þess á eftirspurn og atvinnustig í landinu. Hins vegar fagnar ASÍ því að dregið hafi verið úr áformuðum skattahækkunum um þriðjung, að því er segir í tilkynningu frá samtökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×