Innlent

ASÍ telur skattahækkanir vera í takti við stöðugleikasáttmálann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson er formaður Alþýðusambands Íslands. Mynd/ Pjetur.
Gylfi Arnbjörnsson er formaður Alþýðusambands Íslands. Mynd/ Pjetur.
Alþýðusamband Íslands telur að ríkisstjórnin hafi, við útfærslu beinna skattahækkana, staðið við markmið sem sett voru við gerð stöðugleikasáttmálans. Hins vegar hefur ASÍ áhyggjur af umfangi skattahækkananna á næsta ári og líklegum áhrifum á eftirspurn og atvinnustig í landinu. ASÍ fagnar því að dregið hafi verið úr áformuðum skattahækkunum um þriðjung, að því er segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Við gerð stöðugleikasáttmálans í sumar náðist samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um megináherslur í ríkisfjármálum í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við blasir. Áhersla var lögð á að verja viðkvæma þætti velferðar- og heilbrigðiskerfisins eins og kostur er, en ná aðhaldi ríkisfjármála á næstu 3-4 árum með blandaðri leið sparnaðar í rekstri og skattahækkunum. Einnig var lögð áhersla á að við útfærslu skattahækkana yrði sanngirni og réttlæti höfð að leiðarljósi, þar sem staðið yrði vörð um lægstu tekjur og lægri meðaltekjur" segir í tilkynningunni.

Vilja ganga lengra í tekjutengingu í skattakerfinu

Þá segir að ASÍ hafi lengið talað fyrir því að tekið verði upp þrepaskipt skattkerfi með lægri skatthlutföll á lægstu tekjur. Þó Alþýðusambandið hefði viljað ganga lengra í þessa átt sé niðurstaðan í þessari lotu ásættanleg. Mikilvægt sé að staðið verði við samkomulag ASÍ og stjórnvalda frá febrúar 2008 um hækkun persónuafsláttar um kr. 2.000 um næstu áramót. „ ASÍ telur mikilvægt að sest verði að heildarendurskoðun skattkerfisins, m.a. með auknu jafnræði milli ólíkra tekjuforma á borð við atvinnutekjur og fjármagnstekjur. Fyrirhugaðar breytingar ættu að auðvelda slíka aðlögun," segir í tilkynningunni frá ASÍ.

Mikilvægt að standa vörð um barnabætur og vaxtabætur

Þá segir í tilkynningunni að ASÍ hafi lagt mikla áherslu á að verja bæði barnabætur og vaxtabætur vegna fjárhagserfiðleika heimilanna og fagni því að áform um skerðingar séu dregin til baka. Einnig sé fagnaðarefni að loksins skuli tekið á stöðu stóreignafólks með sérstökum auðlegðarskatti - ASÍ hefði þó gjarnan vilja sjá lægri eignamörk og hærra skatthlutfall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×