Innlent

Húsleitir hjá PWC og KPMG

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Starfsmenn frá Embætti sérstaks saksóknara fóru inn í húsakynni PricewaterhouseCoopers hf í Skógarhlíð 12, klukkan tíu í morgun til að leggja hald á gögn sem tengjast endurskoðun á reikningsskilum Landsbanka Íslands hf og Glitnis banka hf og dótturfélögum þeirra.

Í tilkynningu frá PricewaterhouseCoopers kemur fram að fyrir liggi að heimsóknin tengist rannsókn embættisins á falli bankanna. Í tilkynningunni er jafnframt tekið fram að gagnaöflunin beinist ekki að PricewaterhouseCoopers, einstökum starfsmönnum félagins né öðrum viðskiptavinum þess.

Í tilkynningunni segir að af hálfu PricewaterhouseCoopers sé lögð áhersla á að vinna sem best með embættinu og séu starfsmönnum þess afhent öll umbeðin gögn.

Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, sendi frá sér yfirlýsingu í tengslum við málið. „Tilgangur húsleitanna var að leita að og haldleggja sönnunargögn í þágu rannsókna á ýmsum sakarefnum sem þegar hafa verið tekin til rannsóknar af hálfu embættisins,“ segir þar.

„Til rannsóknar eru m.a. grunur um skjalabrot skv. 17. kafla almennra hegningarlaga, auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga, brot gegn lögum um bókhald og ársreikninga, brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti og loks brot gegn hlutafélagalögum. Til grundvallar húsleitunum liggur m.a. athugun fransks endurskoðanda á ársreikningum bankanna,“ segir ennfremur.

Að sögn Ólafs voru aðgerðirnar víðtækar og tóku alls um 22 þátt í aðgerðunum. „Auk starfsmanna embættisins tóku þátt í húsleitunum lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þ.á m. sérfræðingar í haldlagningu og meðferð rafrænna gagna og sex erlendir sérfræðingar á sviði endurskoðunar.“









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×