Innlent

Stjórnvöld taki afstöðu til bóta fyrir börn á vistheimilum

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Róbert R. Spanó, lagaprófessor og formaður nefndarinnar.
Róbert R. Spanó, lagaprófessor og formaður nefndarinnar.
Nefnd um starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn á vegum ríkisins og sérskóla, sem áður voru starfandi, skilar áfangaskýrslu á næstu vikum. Formaður nefndarinnar segir það verkefni stjórnvalda að taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti skuli koma til móts við vistmenn á heimilunum og nemendur sérskóla með bótum hafi þeir sætt illri meðferð eða ofbeldi.

Nefndin kannaði áður starfsemi Breiðavíkurheimilisins og skilaði svartri skýrslu um vistheimilið í byrjun árs 2008. Þar kom fram að vistmenn máttu þola ofbeldi, einelti og jafnvel kynferðisofbeldi á vistunartímanum. Eftir að skýrslan var lögð fram og rædd á Alþingi vor 2008 fékk nefndin nýtt erindisbréf.

Róbert R. Spanó, lagaprófessor og formaður nefndarinnar, segir að frá því í apríl á síðasta ári hafi nefndin unnið hörðum höndum og rætt við fjölmarga varðandi könnun á tilteknum heimilum, meðal annars Heyrnleysingjaskólanum, Skólaheimilinu Bjargi og Vistheimilinu Kumbaravogi. Hann segir rannsóknaraðferðina í meginatriðum efnislega samsvarandi vinnu nefndarinnar við gerð Breiðavíkurskýrslunnar.

Róbert vill að svo stöddu ekki tjá sig um hvort nefndin telji meiri líkur en minni á að brot hafi verið framin á þeim vistheimilum og sérskóla sem nefndin hefur haft til umfjöllunar. Það skýrist þegar áfangaskýrslan verði lögð fram.

Breiðavíkurskýrslan var kynnt í febrúar 2008. Mynd/GVA
„Ef niðurstaða okkar verður sú að við teljum meiri líkur en minni á einhverskonar lögbroti, eða að börnin hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi, þá gildir sama tillaga og kemur fram í Breiðavíkurskýrslunni hvað varðar hugsanlegar bætur. Við munu ekki endurtaka hana heldur vísa í umfjöllun okkar þar," segir Róbert.

Erindisbréf nefndarinnar gerir ráð fyrir tveimur áfangaskýrslum og lokaskýrslu árið 2011. Róbert segir að önnur vistheimili verði tekin til skoðunar í næstu áfangaskýrslu sem áætlað er að skila næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×