Innlent

Hafís undan Vestfjörðum

Úr myndasafni Landhelgisgæslunnar.
Úr myndasafni Landhelgisgæslunnar.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur undanfarna sólarhringa borist nokkrar tilkynningar um hafís, en ísjakar hafa sést við Vestfirði nánar tiltekið frá norð-austanverðu Horni allt að minni Önundarfjarðar.

Fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar að í morgun hafi verið haft samband við togara á svæðinu og áréttað að skipin létu stjórnstöð strax vita ef hafís sést á svæðinu.

Þeir ísjakar sem skip hafa séð undanfarna daga undan Vestfjörðum hafa ekki komið fram á gervitungamyndum. Engu að síður geta þeir verið hættulegir skipum því einungis hluti af þeim er ofansjávar.

Olíuskip sigldi í gegn um svæðið

Á vef Landhelgisgæslunnar segir að það hafi vakið áhyggjur þegar fregnir bárust af siglingu olíuskipa um íslensku efnahagslögsöguna á leið sinni frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Annað skipanna valdi að sigla vestur fyrir land í afleitu veðri en þar var hætta á hafís.

Bæði skipin voru með óvenju stóran farm af hráolíu eða um 106.000 tonn hvort. Algengara er að um svæðið sigli skip með 50til 60 þúsund tonn af hráolíu. Bæði skipin töldu sig ekki þurfa að tilkynna siglingu til vaktstöðvar en eftir að haft var samband við skipin sendu þau nauðsynlegar upplýsingar, að fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×