Innlent

Bankarnir óstarfhæfir

Úr myndasafni. Svandís Svavarsdóttir á tali við fjölmiðlafólk.
Úr myndasafni. Svandís Svavarsdóttir á tali við fjölmiðlafólk.
Svandís Svavardóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, segir að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar sé að snúa hjólum efnahagslífsins af stað með því að gera bankana algerlega starfhæfa. Að hennar mati eru þeir engan veginn starfhæfir. Virkir bankar séu nauðsynlegir fyrir fyrirtækin en fyrirtækin fyrir fólkið.

,,Starfhæfir bankar eru forsenda atvinnulífsins því þannig hafa fyrirtækin aðgengi að lánsfé, gjaldeyrisþjónustu og annari bankaþjónustu. Atvinna fyrir þúsundir einstaklinga byggir á því. Árangur á þessu sviði er því grundvöllur annarra aðgerða," segir Svandís í pistli á heimasíðu sinni.

Áætlanir í samvinnu við sveitarfélög

Svandís segir að flétta verði saman styrk Íslendinga í öllum greinum. Hvort heldur í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, umherfisvænni orku, ferðamennsku eða í grunnstoðum samfélagsins, velferð og menntun.

,,Við getum strax hafist handa og gert áætlanir með hverju einasta sveitarfélagi í landinu um forgangsröðun verkefna og sett mannfrek verkefni í forgang. Hvert einasta fyrirtæki í landinu getur gert slíkt hið sama. Það má gera með því að flétta saman félagslegt framtak og einkaframtak algerlega fordómalaust," segir Svandís.

Ekki má tjalda til einnar nætur

Svandís segir að skapa verði sérstakan vettvang ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins til að leggja upp í slíka áætlun. Vinnan þurfi að byggjast á forsendum jafnréttis og sjálfbærrar stefnu í ákvarðanatöku. ,,Ef við ýtum grænum sjónarmiðum og kvenfrelsissjónarmiðum til hliðar kemur það okkur í koll síðar."

Svandís segir að við megum aldrei aftur falla í þá gildru að tjalda til einnar nætur. ,,Með öðrum orðum: Allar ákvarðanir verða að byggja á langtímasjónarmiðum."

Pistil Svandísar er hægt að nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×