Innlent

Vill samræmd próf upp úr grunnskóla

Nemendur í Hlíðaskóla í samræmdu prófi. Meirihlutinn í Reykjavík hefur ákveðið að kanna kosti þess að taka upp samræmd próf upp úr grunnskólum að nýju. Menntamálráðherra undrast það, mikil sátt hafi ríkt um breytingarnar sem gerðar voru í tíð forvera hennar. fréttablaðið/gva
Nemendur í Hlíðaskóla í samræmdu prófi. Meirihlutinn í Reykjavík hefur ákveðið að kanna kosti þess að taka upp samræmd próf upp úr grunnskólum að nýju. Menntamálráðherra undrast það, mikil sátt hafi ríkt um breytingarnar sem gerðar voru í tíð forvera hennar. fréttablaðið/gva
Menntaráð Reykjavíkur hefur skipað starfshóp um námsmat í grunnskólum borgarinnar. Meðal þess sem hópurinn á að skoða er hvort rétt sé að samræmd próf verði aftur haldin að vori, en ekki hausti eins og nú er.

Fyrirkomulagi samræmdra prófa var breytt árið 2008 og þau haldin að hausti, í upphafi 10. bekkjar. Áður voru prófin að vori, en nú er gefin skólaeinkunn upp úr grunnskólanum.

Kjartan Magnússon, formaður ráðsins, segir það sína skoðun að það hafi verið mistök að færa prófin að hausti. Breyta hafi þurft fyrirkomulagi prófanna frá því sem var, en rétt sé að halda þau að vori í lok skólans.

„Við í meirihlutanum gagnrýndum þetta og fannst samræmdu prófin skipta máli. Jafnvel þó þau væru ekki notuð til að meta inn í framhaldsskólana þá skipti máli að sjá svart á hvítu hvernig nemendur stæðu.“ Kjartan segist hafa orðið var við mikla gagnrýni í skólunum, bæði hjá nemendum og kennurum.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir þetta koma sér á óvart. Málið hafi verið unnið í mikilli sátt í tíð forvera hennar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Katrín segir að skólastarf hafi miðast um of að samræmdu prófunum; þær greinar sem ekki hafi verið prófað í hafi orðið útundan. Kerfið nú sé í takt við það sem Finnar hafi notað með góðum árangri.

Nokkur umræða var um það að einkunnir myndu hækka þegar samræmdu prófin væru ekki lengur til staðar. Katrín segir að það hafi ekki verið kannað til hlítar, en stikkprufur sýni að einkunnir hafi ekki bólgnað. Áfram verði þó fylgst með þróuninni.

Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði eftir því að eiga fulltrúa í starfshópnum, ásamt fulltrúa kennara. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vísaði þeirri tillögu frá, gegn atkvæðum minnihlutans. Ekki náðist í fulltrúa skólastjórafélagsins við vinnslu fréttarinnar.

Kjartan segir að ákveðið hafi verið að hafa starfshópinn aðeins þriggja manna og pólitískt skipaðan, það væri þá hægt að kalla eftir sjónarmiðum fleiri inn í hópinn. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks, gegnir formennsku í starfshópnum.

Menntamálaráðherra fundar á næstu dögum með skólastjórum grunn- og framhaldsskóla. Þar verða skilin á milli skólastiganna rædd sérstaklega.

kolbeinn@frettabladid.is
kjartan magnússon



Fleiri fréttir

Sjá meira


×