Innlent

Risaskip á siglingu við landið

Skipið er 249 metrar að lengd. Fótboltavellir eru um hundrað metrar á lengd.mynd/lhg
Skipið er 249 metrar að lengd. Fótboltavellir eru um hundrað metrar á lengd.mynd/lhg

Síðustu daga hafa óvenju stór olíuskip átt leið um íslensku efnahagslögsöguna á siglingu frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Skipin eru Atlas Voyager og Nevskiy Prospect, bæði um 62 þúsund brúttótonn, 249 metrar að lengd, og með yfir hundrað þúsund tonn af hráolíu innanborðs. Hvorugt skipanna lét vita af ferðum sínum eins og lögboðið er.

Atlas Voyager sigldi vestur fyrir land en Nevskiy Prospect stefnir ekki fjarri ströndum við SA-land. Vaktstöð siglinga fékk tilkynningar um siglingu skipanna frá skipaeftirlitsstöðinni Vardo VTS í Norður-Noregi. Skipin sendu ekki tilkynningar um siglingu innan hafsvæðisins eins og lög og reglur gera ráð fyrir og var því haft samband við þau.

Hvorugt skipið taldi sig þurfa að tilkynna siglingu til vaktstöðvarinnar en eftir að haft var samband við skipin sendu þau nauðsynlegar upplýsingar. Vegna misbrests á tilkynningum til stjórnstöðvar frá þessum olíuskipum verður haft samband við siglingaumferðarmiðstöðina í Vardö og áréttað að skip sem þessi sendi tilkynningar tímanlega um komur sínar inn í íslenska lögsögu.

Nokkrar áhyggjur vöknuðu hjá LHG vegna siglingar Atlas Voyager vestur fyrir land því veður var afleitt og hafís á svæðinu. Grannt er fylgst með skipunum í eftirlitsbúnaði stjórnstöðvarinnar enda afar viðkvæmur farmur um borð, segir í frétt á vef LHG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×