Innlent

Brennuvargur dæmdur í fangelsi

Maðurinn kveikti í hesthúsi við Sörlaskjól við Hafnarfjörð í apríl í fyrra. Mynd/Stöð 2
Maðurinn kveikti í hesthúsi við Sörlaskjól við Hafnarfjörð í apríl í fyrra. Mynd/Stöð 2
Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir að kveikja í hesthúsi í Hafnarfirði og stolnum bíl í apríl á síðasta ári. Hann var einnig fundinn sekur um eignaspjöll í fjölbýlishúsi í Reykjavík þar sem hann notaði exi til að brjóta rúður og hurðir.

Slökkviliðsmenn björguðu átta hrossum á síðustu stundu út úr logandi hesthúsi við Sörlaskjól, ofan við Hafnarfjörð, eftir að maðurinn ásamt félaga hans kveiktu í húsinu aðfaranótt 7. apríl 2008. Áður höfðu mennirnir stolið bíl af bílastæði við Borgarleikhúsið sem þeir óku að Kaldárselsvegi uns bíllinn hafnaði utan vegar. Í framhaldinu kveiktu þeir í bílnum.

Maðurinn var einnig fundinn sekur um eignaspjöll þegar hann ásamt öðrum manni ollu skemmdum í anddyri og sameign fjölbýlishúss í Reykjavík í janúar 2008. Mennirnir brutu rúður, hurðir, læsingu á hjólageymslu, dyrasíma og fimm póstkassa og notuðu til þess meðal annars exi.

Sakaferill mannsins nær allt til ársins 2001 en þá var hann 18 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×