Innlent

Áhugasamir skrái sig á netinu

Þorsteinn Þorsteinsson er formaður Bankasýslu ríkisins.
Þorsteinn Þorsteinsson er formaður Bankasýslu ríkisins.

Bankasýsla ríkisins hefur skipað valnefnd til að tilnefna fulltrúa ríkisins til setu í stjórnum bankanna. Í nefndinni sitja Kristín Rafnar, forstöðumaður í Kauphöllinni, Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR, og Helga Valfells, sérfræðingur hjá Nýsköpunarsjóði.

Fólk sem hefur áhuga á að sitja í stjórn banka og telur sig uppfylla hæfisskilyrði getur gefið kost á sér á vefsetri sem Bankasýslan er að koma sér upp. Þá leitar valnefndin einnig eftir fólki að eigin frumkvæði. Vil val ber nefndinni að leggja mat á hæfni og reynslu og gæta að heildaryfirbragði svo stjórnirnar séu ekki of einsleitar. Þá skal hún leitast við að tryggja að í stjórnunum sitji sem næst jafn margar konur og karlar.

Samkvæmt samningum sem ríkið hefur gert við skilanefndir gömlu bankanna á það rétt á einu stjórnarsæti í stjórn Íslandsbanka, fjórum í stjórn Landsbankans og fjórum hjá Nýja Kaupþingi sem þó fækkar í einn ef kröfuhafar ákveða að yfirtaka meirihlutann í bankanum. Bankasýslan auglýsti fyrr í mánuðinum eftir forstjóra og rennur umsóknarfrestur út í byrjun næstu viku.

Þó að Bankasýslan hafi tekið til starfa og fari með eigandahlutverk í bönkunum verður lúkning samninga við kröfuhafa áfram á hendi fjármálaráðherra.- bþs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×